Blak: Þróttur með yfirburði gegn Stál-Úlfi
Þróttur vann í gærkvöldi Stál-Úlf í lokaleik sínum fyrir jólafríið í úrvalsdeild karla í blaki. Leikið var í Neskaupstað. Þróttur nýtti leikinn vel til að reyna á leikmannahóp sinn og varð fjórtán ára gamall leikmaður stigahæstur.
Þróttur fór af stað með látum og komst í 8-0. Eftir það hægðist aðeins á en liðið vann fyrstu hrinu 25-13. Í annarri hrinu var jafnt í 4-4. Þá skoraði Þróttur sex stig í röð og vann hana síðan 25-9. Þriðja hrinan fór 25-14.
Yfirburðirnir sjást einnig í tölfræði leiksins. Þróttur skoraði 37 gegn 16 stigum úr smössum og 10 stig gegn 2 beint úr uppgjöfum.
Gestirnir mættu aðeins með sex leikmenn austur, eða akkúrat það sem þarft til að ná í lið. Það gaf tóninn fyrir það sem beið. Þróttur nýtti leikinn til að gefa leikmönnum tækifæri. Allir 14 leikmennirnir komu við sögu og dreifðist framlag þeirra nokkuð vel.
Yngsti leikmaður vallarins, hinn 14 ára gamli Ágúst Leó Sigurfinnsson, varð jafnframt stigahæstur með sjö stig. Fimmtán ára tvíburabræður, Svanur og Sölvi Hafþórssynir, skiptu með sér uppspilarastöðunni. Um tíma var meðalaldur Þróttarliðsins 16 ár.
Þróttur er nú í fjórða sæti deildarinnar með 18 stig eftir 13 leiki. Liðið berst um sætið við HK og KA. HK er með 16 stig úr 13 leikjum en KA 15 stig úr 11 leikjum. Þróttur á einn leik eftir í deildakeppninni og verður hann spilaður eftir tæpar fjórar vikur.
Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða