Blak: Þróttur tapaði fyrsta leik gegn KA í úrslitakeppninni

Karlalið Þróttar Neskaupstað tapaði í gærkvöldi fyrsta leik sínum gegn KA í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í blaki.

Þrótti gekk best í fyrstu hrinu, náði mest fjögurra stiga forskoti, 14-10 og leiddi upp í 22-21. Þá skoraði KA fjögur stig í röð og vann hrinuna 22-25.

Þróttur var yfir 10-7 í annarri hrinu en átti þá slæman kafla, KA komst í 16-22 og kláraði hrinuna 21-25.

Þróttur byrjaði þriðju hrinu illa. Leikur liðsins lagaðist eftir að þjálfarinn Atli Freyr Björnsson tók leikhlé í stöðunni 4-10. Þróttur jafnaði í 17-17 og áfram hélst jafnt upp í 22-22. KA skoraði þó alltaf á undan og gerði að lokum út um bæði hrinuna og leikinn með þremur stigum í röð.

Raul Garcia Asensio var stigahæstur Þróttar með 12 stig en Jose Federico Martin skoraði tíu. Miðað við tölfræðigreiningu leiksins þá munaði litlu á liðunum nema að sóknarleikur KA gekk heldur betur miðað við að liðið skoraði fleiri stig úr smössum.

Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst í undanúrslit en liðin mætast næst á Akureyri á föstudag.

Kvennalið Þróttar spilar í kvöld fyrsta leik sinn við HK í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í Kópavogi. Liðin mættust tvisvar í deildakeppninni og vann HK báða þá leiki nokkuð örugglega.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigríður Þrúður


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.