Skip to main content

Blak: Tímabilið búið hjá meistaraflokkum Þróttar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. apr 2023 10:17Uppfært 18. apr 2023 10:20

Bæði karla- og kvennalið Þróttar Neskaupstað luku keppni í úrvalsdeildunum í blaki um helgina. Karlaliðið tapaði fyrir Vestra en kvennaliðið fyrir Aftureldingu.


Bæði lið náðu þó þeim árangri að komast í fyrstu umferð úrslitakeppni deildanna. Leikið var heima og heiman í síðustu viku.

Reyndar er hæpið að tala um „heimaleiki“ hjá karlaliðinu. Það mætti Vestra og báðum liðum til hagræðis þá sammæltust liðin um að spila leiki sína á höfuðborgarsvæðinu. Heimaleikur Vestra var spilaður í Mosfellsbæ á föstudagskvöld en heimaleikur Þróttar í Laugardalshöll á sunnudag.

Vestri hafði yfirburði í fyrri leiknum, vann 3-0 eða 25-19, 25-17 og 25-22 í hrinum. Seinni leikurinn var jafnari þótt Vestri ynni hann 1-3 eða 24-26, 23-25-, 25-21 og 21-25 í hrinum.

Í samantekt frá blakdeild Þróttar er farið yfir að þótt einfalt hljómi að spila heimaleiki á hlutlausum velli þá sé það alls ekki. Heimalið er ábyrgð fyrir framkvæmd leiks sem alltaf byggi á sjálfboðaliðum. Erfiðra sé að fá þá þegar heimaleikurinn er utan heimabyggðar.

Í þessu tilfelli hafi það þó gengið ágætlega, enda Þróttur vel tengdur á höfuðborgarsvæðinu þangað sem fjöldi Norðfirðingar með grunn úr blakinu hefur flutt í gegnum tíðina. Þannig sé formaður blakdeildar Aftureldingar að austan auk þess sem bæði fyrrverandi leikmenn bæði Þróttar og Vestra spili með liðinu í dag. Þá hjálpaði til að kvennalið Þróttar var syðra til að spila um helgina.

Þær spiluðu gegn Aftureldingu, fyrst í Neskaupstað á fimmtudag og töpuðu þar 1-3 eða 17-25, 25-22, 16-25, 17-25 í hrinum. Sömu lokatölur urðu í leiknum á sunnudag. Þróttur vann reyndar fyrstu hrinuna 24-26 en síðan tók heimaliðið við og vann 25-22, 25-17 og 25-15.

Lið Vestra og Þróttar eftir leikinn á sunnudag. Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða