Skip to main content

Blak: Tímabilinu að verða lokið hjá úrvalsdeildarliðum Þróttar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. mar 2025 10:35Uppfært 24. mar 2025 10:37

Kvennalið Þróttar lauk um helgina keppni í úrvalsdeild kvenna á þessari leiktíð þegar liðið tapaði gegn HK á útivelli. Karlaliðið á enn leik eftir. Ljóst er að hvorugt liðið kemst í úrslitakeppnina sem leikin verður í apríl.


Kvennaliðið lauk keppni í fimmta sæti af átta, en fjögur efstu liðin fara í úrslitakeppnina. Mikill munur var á milli liða, Þróttur endaði með 14 stig en HK, sem varð í fjórða sæti með 32 stig en liðin mættust um helgina.

Þrátt fyrir þennan mun í töflunni fór Þróttur vel af stað í Kópavogi á laugardag og vann fyrstu hrinuna 19-24. Í þeirri næstu hafði HK hins vegar yfirburði, vann 25-11.

Þriðja hrinan varð mjög jöfn. Þróttur var nærri búinn að klára hana, var yfir 21-24 en HK skoraði þrjú stig í röð og jafnaði. Reyndar urðu HK stigin fjögur í röð, það komst yfir 25-24 en Þróttur jafnaði. Liðin skiptust síðan aðeins á forustunni áður en HK tókst að knýja fram 30-28 sigur. Fjórða hrinan var eign HK sem vann 25-18 og leikinn þar með 3-1.

Karlaliðið spilaði einnig um helgina en sá leikur var í Mosfellsbæ gegn Aftureldingu. Afturelding vann fyrstu hrinu 25-19 en Þróttur þá næstu af þrautseigju eftir upphækkun, 25-27.

Þróttur átti ágæta frammistöðu í þriðju hrinu, var meðal annars yfir 20-22 en Afturelding reyndist sterkari á endasprettinum og vann 25-23. Fjórða hrinan var einnig nokkuð jöfn en aftur var Afturelding seigari í lokin, vann hrinuna 25-22 og leikinn 3-1.

Tölurnar gefa til kynna einn af betri leikjum Þróttar í vetur, en liðið endaði í áttunda og neðsta sæti með átta stig. Tíu stig eru upp í næsta lið. Afturelding varð í fjórða sæti með 34 stig, síðasta liðið inn í úrslitakeppni. Þróttarliðið á enn einn leik eftir, frestaðan leik gegn Vestra á Ísafirði sem spilaður verður þar á fimmtudag. Leikurinn hefur engin áhrif á úrslitakeppnina.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða