Boða til funda um húsnæðis- og kjaramál
Samfylkingin hefur boðað til þriggja opinna funda á Austurlandi þar sem sérstaklega verður rætt um húsnæðismál, kjaramál og málefni fjölskyldna. Kristrún Frostadóttir, formaður flokksins, leiðir fundina.„Við hlökkum til að eiga samtöl við heimamenn um húsnæðismálin, kjörin og málefni fjölskyldna,“ er haft eftir Kristrúnu í fréttatilkynningu.
„Það hefur verið kappsmál hjá okkur að opna málefnastarf Samfylkingarinnar upp á gátt þannig að fólk um allt land geti tekið þátt í að leggja grunn að áherslum og forgangsröðun flokksins í veigamestu málaflokkum. Það er öllum velkomið að taka þátt í samtalinu og koma á framfæri sínum sjónarmiðum – við komum til að hlusta. Heilbrigðismálin voru í forgrunni í fyrra, svo atvinna og samgöngur síðasta vetur og nú erum við að taka hringferð um húsnæðis- og kjaramálin,“ segir hún.
Með henni í för verður Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður úr Reykjavík, sem leiðir stýrihóp Samfylkingarinnar um húsnæðis og kjaramál. Eins verður með þeim Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs starfsgreinafélags, sem situr í hópnum.
„Við erum meðal annars að kortleggja hvernig er hægt að byggja meira, hraðar og betur til að koma jafnvægi á íbúðamarkaðinn, hvernig er skynsamlegt að styðja betur við barnafólk og tryggja að eldra fólk njóti ávinnings af því að hafa greitt í lífeyrissjóði,“ er meðal annars haft eftir Jóhanni Páli.
Fyrsti fundurinn verður í Sláturhúsinu á Egilsstöðum klukkan 17:00 í dag í formi fjölskyldugrills, sá næsti á Sumarlínu á Fáskrúðsfiðri klukkan 20:00 í kvöld og loks morgunkaffi á Beljanda á Breiðdalsvík klukkan níu í fyrramálið.