Boðað til samstöðufunda á Austurlandi í tilefni kvennaverkfalls
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 24. okt 2023 07:53 • Uppfært 24. okt 2023 07:53
Þrír samstöðufundir hafa verið boðaðir á Austurlandi í tilefni kvennaverkfalls í dag. Skerðing verður á starfsemi ýmissa stofnana.
Boðað er til verkfallsins til að mótmæla kynbundnu launamisrétti og ofbeldi. Er þetta í sjöunda sinn sem kvennafrí eða kvennaverkfalls síðan það var fyrst gert á þessum degi árið 1975.
Þrír baráttu- eða samstöðufundir hafa verið boðaðir. Sá fyrsti verður í íþróttahúsinu í Neskaupstað og hefst klukkan 11. Sá næsti verður á Hótel Héraði á Egilsstöðum klukkan 13. Sá þriðji verður á Hótel Framtíð á Djúpavogi klukkan 17:30. Boðað er til fundanna undir ýmsum formerkjum, ýmist verða ávörp og barátturæður eða einfalda hist og spjallað í tilefni dagsins.
Ljóst er að þjónusta á svæðinu skerðist töluvert. Til að mynda verða allir grunn- og leikskólar lokaðir, auk flesta bókasafnanna. Á Vopnafirði er einnig lokað í sundlauginni í Selárdal og lyfsölunni auk þess sem félagsstarf eldri borgara fellur niður. Í Múlaþingi loka tónskólarnir líka og skrifstofan á Seyðisfirði.
Hjá Heilbrigðisstofnun Austurland eru 87% starfsfólks konur. Í tilkynningu frá stofnuninni segir að þjónusta, önnur en bráðaþjónusta, verði takmörkuð. Öryggi verður tryggt með þjónustu í bráðatilvikum auk þess sem sólarhringsþjónusta verður á sjúkradeild, fæðingadeild og hjúkrunarheimilum. Símsvörun og símaráðgjöf verða opnar en reikna má með lengri bið en aðra daga. „Við væntum skilnings á því enda staðreyndin sú að konurnar okkar eru ómissandi,“ segir í tilkynningunni.
Þá hafa ýmis fyrirtæki gefið út að starfsemi skerðist eða lýst formlegum stuðningi við kvennaverkfallið með að draga ekki laun af konum sem taka þátt í deginum, þótt verkfallið sé tæknilega ekki verkfall sem lúti að lögum um vinnudeilur. Meðal þeirra er Eskja en í færslu frá fyrirtækinu segir að það leggi ríka áherslu á jafnlaunastefnu í sinni starfsemi. Sesam brauðhús á Reyðarfirði hefur tilkynnt um lokun.
Í frétt á vef Menntaskólans á Egilsstöðum eru konur og kvár hvött til að taka sér frí. Ekki verður dregið af launum eða gefnar fjarvistir vegna dagsins. Flestar skrifstofur AFLs Starfsgreinafélags verða lokaðar.