Skip to main content

Börkur og Beitir aflahæstu uppsjávarskipin á liðnu ári

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. jan 2024 12:56Uppfært 09. jan 2024 13:08

Nýliðið ár gæti vart hafa verið betra fyrir skip Síldarvinnslunnar í Neskaupstað [SVN] en rekstrarstjóri útgerðarinnar segir árið allt hafa gengið eins og í sögu. Uppsjávarskipin Börkur NK og Beitir NK enduðu sem aflahæstu skipin og Barði NK kom þar rétt á eftir.

Samkvæmt upplýsingum frá SVN veiddi Börkur samtals 71.366 tonn, Beitir halaði inn 70.074 tonnum, Barði landaði 45.510 tonnum og Bjarni Ólafsson AK kom að landi með 8.250 tonn alls. Sá síðastnefndi var aðeins að hluta til að loðnuveiðum miðað við hin skipin. Allar vertíðir skipanna gengu vel hvort sem um loðnu, síld, makríl eða kolmunna var að ræða. Skipin eru einmitt nú á kolmunnaveiðum á gráa svæðinu og í færeysku lögsögunni og gengur veiðin vel nú um mundir enda veðurfar verið gott eins og raunin var einnig á sömu veiðum fyrir ári síðan.

Grétar Örn Sigfinnsson, rekstrarstjóri, segir á vef fyrirtækisins að loðnuvertíð síðasta árs hafi einfaldlega ekki getað verið betri en hún varð.

Það er varla hægt að hugsa sér þetta betra. Börkur og Beitir eru aflahæstu íslensku uppsjávarveiðiskipin og Barði var líka að gera það afar gott. Bjarni Ólafsson kom einungis til aðstoðar í skamman tíma á loðnuvertíðinni. Ég held að til dæmis loðnuveiðin hafi ekki getað gengið betur, það var allt hagstætt og þá ekki síst veðrið. Nýja árið byrjar líka vel. Kolmunnaveiðarnar á gráa svæðinu og í færeysku lögsögunni fara ágætlega af stað en það er gífurlegur fjöldi skipa á miðunum núna.