Börnum frá Eskifirði ekið í íþróttakennslu á Reyðarfjörð næsta vetur
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 18. júl 2023 13:42 • Uppfært 18. júl 2023 14:23
Ákveðið hefur verið að láta framkvæmdir við húsnæði Grunnskólans á Eskifirði ganga fyrir endurbótum á íþróttahúsi staðarins. Mygla greindist í húsunum síðasta vetur. Að sinni verður börnum frá Eskifirði keyrt yfir á Reyðarfjörð þar sem íþróttir verða kenndar.
„Börnunum verður verður ekið í íþróttir á Reyðarfirði næsta vetur auk þess sem íþróttakennslan verður mögulega að einhverju leyti utandyra,“ segir Laufey Þórðardóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs Fjarðabyggðar.
Ákvörðunin var kynnt á fundi með foreldrum á Eskifirði í síðasta mánuði þar sem farið var yfir framkvæmdaáætlunina, en stefnt er að því að skólahúsnæðið verði allt nothæft eftir mánuð. Laufey segir að viðbrögðin við akstrinum hafi verið misjöfn.
„Það kom gagnrýni fram. Einhverjir höfðu áhyggjur af hvernig öryggi barnanna yrði tryggt. Um svona akstur gilda ákveðnar reglur og við eigum þann búnað sem til þarf.
Það voru líka áhyggjur af akstri í vondum veðrum. Við höfum keyrt frá Reyðarfirði til Eskifjarðar í sund. Ef veður er þannig að ekki þyki óhætt að keyra þá er ekki farið af stað.“
Laufey segir eðlilegt að fólk vilji geta haft íþróttakennsluna í sinni heimabyggð en margt fundarfólks hafi sýnt því skilning að grunnskólinn gengi fyrir að sinni.
Hún segir búið að skipuleggja aksturinn, búið sé að bjóða hann út og beðið sé eftir að samningar séu í höfn. „Þetta eru ekki stórkostlegar vegalengdir. Það eru fordæmi um svona akstur í fleiri sveitarfélögum. Þetta er vel framkvæmanlegt, snýst mest um skipulagið.“
Börnum frá Reyðarfirði verður síðan ekið í sundkennslu á Eskifirði næsta vetur.