Bólusetningar gengu vel á Vopnafirði í gær

Á fjórða tug barna á Vopnafirði fengu í gær bólusetningu við mislingum. Gripið var til aðgerðanna eftir að smit kom upp í nærsamfélaginu um helgina. Fleiri tilfelli hafa ekki greinst enn.

Börn á Íslandi eru vanalega bólusett fyrst við 18 mánaða aldur og svo aftur 12 ára. Við sérstakar aðstæður, eins og þær sem nú eru uppi á Norðausturhorninu, má færa þann aldur niður í sex mánuði og seinni sprautuna fjórum vikum síðar.

Pétur Heimisson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, segir að í gær hafi á fjórða tug barna á Vopnafirði, sem ekki lék grunur á að væri í smithættu og töldust ekki fullbólusett, verið bólusettur. Sú vinna gekk mjög vel.

Einstaklingur á Þórshöfn greindist um helgina með mislinga. Hann hafði sótt þjóðahátíð sem haldin var á Vopnafirði sunnudaginn 14. apríl. Meðgöngutími mislinga getur verið 1-3 vikur og geta einstaklingar smitað aðra í allt að fjóra daga áður en þeir finna sjálfir til einkenna.

Pétur segir að þess vegna sé áfram vandlega fylgst með stöðunni. Ekkert nýtt smit greindist í gær.

Einstaklingum sem finna fyrir einkennum sem líkjast mislingum er bent á að hafa samband við lækna í síma 1700. Nánari upplýsingar um mislinga og viðbrögð við þeim má finna á vef HSA.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.