Borgfirðingum ráðlagt að sjóða neysluvatn

Íbúum á Borgarfirði eystra hefur verið ráðlagt að sjóða neysluvatn sitt eftir að mengun greindist í því. Slíkt hefur áður gerst eftir mikla úrkomutíð. Koma þarf upp öflugri mengunarvörnum til framtíðar.

Í tilkynningu frá HEF veitum ehf. Í morgun segir að við reglubundið eftirlit hafi komið í ljós að neysluvatnið á Borgarfirði sé menguð af saurgerlum og E.coli gerlum. Það gefur til kynna að það sé mengað af saur frá mönnum eða blóðheitum dýrum.

Í byrjun í október 2023 þurftu Borgfirðingar að sjóða vatn sitt eftir að sambærileg mengun kom þar upp. „Væntanlega hefur yfirborðsvatn komist í lindirnar eftir mikla úrkomu. Samkvæmt okkar upplýsingum hefur það gerst reglulega og væntanlega alla tíð,“ segir Aðalsteinn Þórhallsson, forstjóri HEF veita.

Eftir atvikið í fyrra var bætt úr girðingum á vatnstökusvæðinu til að hindra að dýr kæmust nálægt því. Aðalsteinn segir að staðan nú sýni að það dugi ekki til og því þurfi að fara í frekari aðgerðir. „Við áttum í samtali við Heilbrigðiseftirlit Austurlands (HAUST) í fyrra og það var metið að ekki þyrfti tafarlausar aðilar.

Við höfum tekið það samtal upp aftur og í framhaldi af því erum við að undirbúa ráðstafanir til að setja upp gegnumlýsingu á vatnið, sem drepur gerlana. Það tekur sinn tíma.“

Sjóða þarf vatn fyrir neyslu en óhætt á að vera að nota það til annarra nota, svo sem baða, þvotta og til að skola matvæli fyrir eldun. Nánari upplýsingar verða veittar á heimasíðu HEF.

Í fyrra giltu tilmælin í tvær vikur. Aðalsteinn segir líklegt að svo verði einnig nú. „Það eru engar töfralausnir heldur þarf mengunin að ná að skolast út. Það eru litlar líkur á að það gangi neitt hraðar nú.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.