Skip to main content

„Börnin eru alveg dolfallin“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. sep 2018 12:55Uppfært 27. sep 2018 12:56

„Pétur og úlfurinn er sígilt verk sem Bessi Bjarnason gerði ódauðlegt fyrir okkur öll á sínum tíma,“ segir Karna Sigurðardóttir, forstöðukona Menningarstofu Fjarðabyggðar, en kvintettinn NA5 flytur verkið í Fellabæ og á Breiðdalsvík á laugardaginn.


Um samstarfsverkefni við Tónlistarmiðstöð Austurlands er að ræða, en því er ætlað að auka menningarlæsi barna í fjórðungnum. Sýningarnar á laugardaginn verða í Fellaskóla klukkan 11:00 og grunnskólanum á Breiðdalsvík klukkan 16:00. Sýningin er 25 mínútur að lengd og í lokin fá börnin að hitta hljóðfæraleikarana og skoða sjálfan úlfinn!

„Uppsetningin er afar vel heppnuð hjá NA5 kvintettinum, en með einföldum búningum og leikrænni tjáningu hjálpa þau börnunum að lifa sig algerlega inn í söguna og tengja hljóðfærin við dýrin. Ég hef sjálf fylgst með þessum sýningum og börin eru alveg dolfallin, enda bæði töfrandi verk og flutningur,“ segir Karna.

Markmiðið að sýna verkið um allt Austurland
Verkið var flutt í Fjarðabyggð í vor og segir Karna markmiðið að sýna það á öllum stöðum á Austurlandi.

„Pétur og úlfurinn er verk sem hefur sannað sig í gegnum tíðina sem leið fyrir börn til að kynnast og upplifa klassíska tónlist sem eitthvað ótrúlega áhugavert og spennandi. Þau læra svo mikið á vídd og fjölbreytileika og þetta er því sérstakt tækifæri fyrir okkur hér á Austurlandi að kynna börnin okkar fyrir þessari tegund tónlistar. Við teljum mikilvægt að bjóða upp á fjölbreytta menningardagskrá fyrir börn og þetta verkefni er liður í því að efla menningarlæsi þeirra.“