Breiðdælingar langþreyttir á ástandi malarveganna
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. apr 2025 11:46 • Uppfært 30. apr 2025 11:53
Íbúar í Breiðdal eru orðnir þreyttir á ástandi malarvega í sveitinni sem þeir segja að hafi ekki fengið almennilegt viðtal árum saman. Afleiðingarnar birtast í tíðum dekkjaskiptum. Vegagerðin skoðar hvað hægt verði að gera í sumar.
Austurfrétt hefur að undanförnu fengið ábendingar frá íbúum á nokkrum bæjum um Breiðdal um ástandið. Einn sagðist hafa sprengt dekk sjö sinnum síðasta sumar og dekkjaumgangurinn verði gjörsamlega ónýtur eftir sumarið.
Íbúarnir segja að ekki hafi verið borið almennilega ofan í veginn í áraraðir. Niðurstaðan sé að efni sé farið úr veginum. Upp úr veginum standi síðan steinar og jafnvel klappir en frost lyftir líka undir þá. Við bætast holur.
Slæmt ástandið er ekki bundið við sveitina sjálfa heldur byrja vondir kaflar og leið og malbikið endar í ofanverðum Skriðdal á leið upp Breiðdalsheiði.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni var malarslitlag borið yfir Breiðdalsheiði að klæðningarenda árið 2022. Þá hafi vegurinn í Suðurbyggð Breiðdals verði blettaður árið 2023, það er möl sett ofan í á verstu stöðunum.
Þessa dagana er verið að vinna í malarburðaráætlun fyrir sumarið og þar með skýrist forgangsröðunin.
Svona er ástandið efst í Skriðdal þessa dagana. Mynd: Aðsend