Skip to main content

Breiðdælingar óttast um framtíð prestssetursins í Heydölum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. mar 2022 11:43Uppfært 30. mar 2022 11:46

Þjóðkirkjan birti í gær auglýsingu um starf prests í Austfjarðaprestakalli. Ekki er í auglýsingu skilgreint hvar prestur skuli sitja. Breiðdælingar hafa áhyggjur af framtíð prestssetursins að Heydölum.


Séra Dagur Fannar Magnússon kvaddi söfnuð sinn um helgina með tveimur kveðjumessum, annars vegar í Heydölum þar sem hann hefur búið í tæp þrjú ár, hins vegar á Stöðvarfirði. Hann tekur við starfi í Skálholti um mánaðamótin.

Þá færðist séra Erla Björk Jónsdóttir, prestur á Reyðarfirði, norður í land um áramótin. Bæði embættin tilheyra Austfjarðaprestakalli. Í því hafa starfað fimm prestar síðustu ár en þrír þeirra verða eftir í byrjun næstu viku. Fyrir Kirkjuþingi í fyrra lá tillaga um að fækka prestum um einn á svæðinu, niður í fjóra. Hún hlaut ekki framgang þá.

Auglýst eftir presti

Þótt vitað hafi verið um nokkurt skeið að bæði Erla og Dagur væru á förum var það ekki fyrr en í gær sem auglýsing birtist eftir presti. Í henni er fyrirvari um að unnið sé að breytingum á skipan prestakalla um allt land.

Eftir að ljóst var að Dagur Fannar væri á förum hafa einkum Breiðdælingar haft áhyggjur af framtíð prestssetursins að Heydölum og kallað eftir viðbrögðum frá Þjóðkirkjunni um hvort til standi að leggja búsetu prests af þar.

Í auglýsingunni frá í gær segir ekkert um búsetu prests, aðeins að hann þurfi að þjóna stóru svæði. Viðmælendur Austurfréttar hafa síðustu vikur bent á að þrýstingur sé á að auka þjónustuna í norðurhluta prestakallsins, þar sem mesta þéttbýlið er á Norðfirði, Eskifirði og Reyðarfirði. Samkvæmt auglýsingunni eru alls 3738 einstaklingar í Þjóðkirkjunni í prestakallinu, þar af 2603 á norðursvæðinu. Þar býr í dag einn prestur.

Annar prestur er á Fáskrúðsfirði, þar eru um 500 sóknarbörn. Sá þriðji er á Djúpavogi, á því svæði eru ríflega 340 sóknarbörn. Að lokum eru um 280 sóknarbörn á Stöðvarfirði og Breiðdal.

Eitt sögufrægasta prestssetur landsins

Breiðdælingar hafa að undanförnu þrýst á Þjóðkirkjuna um að standa vörð um prestssetrið að Heydölum, með að tryggja ráðningu prests þangað, en ekki fengið svör. Í bréfi, sem sóknarnefnd sendi frá sér nýverið, er bent á Heydalir séu eitt sögufrægasta prestssetur landsins, prestur hafi setið þar frá kristnitöku eða í meira en 1000 ár.

Þar er vísað til þess að í meira en 100 ár hafi reynst farsælt að vera með sameiginlegan prest fyrir Breiðdal og Stöðvarfjörð og því lýst sem áfalli fyrir íbúa á svæðinu ef það lægðist á. Þá er tekið fram að Heydalir séu orðnir eina prestssetrið sem eftir sé í dreifbýli á Austurlandi.

Sérstaklega er vakin athygli á menningarsögulegu gildi Heydala. Í meira en áratug hefur verið unnið að hugmyndum um stofnun Einarsstofu í Heydölum, til minningar um Einar Sigurðsson sem var prestur í Heydölum frá 1590-1626. Einar var afkastamesta skáld Íslendinga á þessum tíma og orti megið af Vísnabók sem gefin var út árið 1612 af Guðbrandi Þorlákssyni biskup. Sr. Gunnlaugur Stefánsson, sem var prestur í Heydölum til 2019, leiddi þetta starf og hefur verið unnið að því áfram í tíð séra Dags Fannars.

Í bréfi sóknarnefndarinnar segir að forgangsatriði sé að prestur sitji áfram í Heydölum. Það sé til að halda á lofti minningu eins helsta sálmaskálds Íslendinga, varðveita sögu Heydala sem ein af höfuðkirkjum Austurlands, tryggja þjónustu við dreifbýli og varðveita gott samstarf milli sóknanna í Breiðdal og Stöðvarfirði. Rof á prestsbúsetu í Heydölum yrði bæði reiðarslag fyrir samfélögin og menningarsögulegt slys. Því er skorað á yfirstjórn kirkjunnar að beita sér fyrir því af alefli að Heydalir verði áfram prestssetur.

Nýr prestur 1. ágúst

Umsóknarfrestur um starfið í Austfjarðaprestakalli er til 13. apríl. Valnefnd fer síðan yfir umsóknirnar og gerir tillögu til biskups, sem skipar í embættið. Heimilt er þó að óska eftir almennum prestskosningum. Miðað er við að nýr prestur hefji störf þann 1. ágúst.

Í auglýsingu segir um áherslur í starfi að nýr prestur skuli hafa þekkingu og reynslu sem nýtist vel í öllu kirkjulegu starfi, þó sé sérstök áhersla á barna- og æskulýðsstarf og öldrunarþjónustu.