Bremenports segist lenda á þagnarmúr hjá íslenska ríkinu
Covid-faraldurinn hefur tafið framgang hugmynda um stórskipahöfn í Finnafirði. Stjórnandi hjá Bremenports segir bæði hafnarsamlagið og borgaryfirvöld vilja vinna áfram að því, en ekki fáist einu sinni áheyrn hjá íslenska ríkinu til að fara yfir þær hindranir sem eru í vegi verkefnisins.Rætt er við Dr. Lars Stemmler, yfirmann alþjóðaverkefna hjá Bremenports, í nýjasta tölublaði Austurgluggans. Hafnarsamlagið hefur um hríð unnið að hugmyndum um stórskipahöfn í Finnafirði. Stofnað var þróunarfélag um höfnina með Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppi árið 2019. Síðan setti Covid-faraldurinn strik í reikninginn.
Í viðtalinu greinir hann frá því að tveir vísindamenn á vegum Bremenports hafi í ágúst í fyrra dvalið um hríð í Langanesbyggð til að taka út innviði og samfélagið á svæðinu. Þeirra mikilvægustu niðurstöður hafi verið að rétt væri að halda áfram með verkefnið.
Ekki næg raforka á svæðinu
Hins vegar væru hindranir í veginum, stærstar þær að raforkukerfið á Norðausturlandi sé það veikbyggt að það anni engan vegin því sem þurfi við framkvæmdirnar. Það spilar síðan inn í að íslensk stjórnvöld virðist of upptekin af margvíslegum vindorkuverkefnum til að svara óskum Bremenports um áframhaldandi samstarf.
„Okkar mat er að ríkisstjórnin sé of upptekin við vindorkumál. Hafandi sagt það þá skrifuðum við undir viljayfirlýsingu við ríkið árið 2016. Síðustu misseri höfum við gert nokkrar tilraunir til að taka upp þráðinn úr henni, meðal annars í gegnum diplómatískar leiðir. Íslenska sendiráðið í Berlín var mjög hjálplegt og þýska sendiráðið í Reykjavík reyndi að hjálpa líka, en við lentum á þagnarmúr,“ segir Lars meðal annars.
Hann segir ekki hægt að segja að íslenska ríkið hafi ekki staðið við sínar skuldbindingar heldur vanti þaðan áframhaldandi samstarfvilja. „Ef viljayfirlýsingin er lesin staf fyrir staf þá er útgangspunktur hennar að skrifa sameiginlega skýrslu um Finnafjarðarverkefnið. Innviðaráðuneytið gerði hana og hún var birt.
Ef það er skilningur íslenska ríkisins að það hafi þar með staðið við sitt, þá er lítið við því að segja. Við lögðum hins vegar annan skilning í viljayfirlýsinguna, sem var sá að skýrslan væri upphafið að frekari samvinnu.“
Mikill áhugi á orkuframleiðslu
Rafmagnsframleiðsla með vindmyllum er meðal þeirra hugmynda sem tengjast Finnafjarðarverkefninu, þótt þær séu á forræði samstarfsaðila Bremenports, verkfræðistofunnar Eflu. Lars segir eldsneytisframleiðslu, einkum í formi vetnis, meðal þess sem Bremenports hafi áhuga á að byggja upp í Finnafirði.
„Við höfum þegar ýmsa aðila sem hafa áhuga á að koma upp rekstri í Finnafirði án þess að hafa lagt í mikla markaðssetningu á verkefninu. Þessir aðilar hringja ýmist í okkur eða Eflu og óska eftir fundum. Við erum hikandi því við viljum þróa verkefnið frekar með samfélaginu því við þurfum til að mynda að taka tillit til ferðamennskunnar. Við komumst ekki lengra með málið fyrr en íslenska ríkið hefur lagt línurnar um vindorkuna. Síðan getum við eða Efla haldið áfram,“ segir Lars. Aðspurður segir hann næstu skref vera að reyna að endurvekja samræðurnar við íslenska ríkið. Það sé þó erfitt ef engin áheyrn fáist.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.