Brennisteins- og súlfatmengun á Austurlandi en engin hætta á ferðum

Í kjölfar síðustu gosumbrota á Reykjanesskaga hefur orðið vart nokkurrar loftmengunar víða um landið og hefur mælst aukning bæði brennisteins- og súlfatmengunar á Austurlandi frá því snemma í morgun. Engin hætta er þessu tengt enda magnið lítið.

Það staðfestir Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, en þar er náið fylgst með loftmengun auk annarra áhrifa gossins við Sundhnúksgíga.

„Það mælist svolítil gosmóða yfir landinu nánast öllu. Það er fyrst og fremst SO2 mengun að mælast sem er brennisteinsdíoxíð en gildin eru ekki þannig að venjulegt fólk ætti að finna fyrir. Hins vegar er svo gosmóðan sem er SO4 sem er súlfatsmengun og mælist jafnan á rykmælum og það er þessi bláleita móða sem meðal annars liggur yfir á Austurlandi. Við mælum ekki mikið magn en þar sem agnirnar eru þannig að þegar sólin skín á þær þá verða þær bláleitar og sjást mjög vel þó ekki sé mikið af þeim í loftinu.“

Aðspurð um hugsanleg áhrif þessa á dýr eða plöntur segir Jóhanna sömu sögu að segja þar. Magn efnanna sé það lítið þrátt fyrir hopp upp á við á mælum hafi þetta engin sérstök áhrif þar frekar en á fólk.

Á meðfylgjandi mynd má glögglega sjá mikið stökk brennisteinsdíoxíðs í andrúmsloftinu á einni af þremur mælistöðvum við Reyðarfjörð. Skjáskot af vefnum Loftgæði.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.