Breskur garpur hálfnaður í sundi sínu umhverfis Ísland
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. júl 2025 09:28 • Uppfært 25. júl 2025 09:34
Breski hreystimeistarinn Ross Edgley er þessa dagana á ferð úti fyrir Austfjörðum en hann reynir að ná þeim árangri að synda umhverfis Ísland. Hann var á Vopnafirði um síðustu helgi og var þá hálfnaður í leiðangri sínum.
Edgley lagði af stað úr Reykjavík um miðjan maí og synti norður fyrir land. Hann kom við á Vopnafirði um síðustu helgi og þar með var ferðin hálfnuð.
Í myndbandi sem hann sendi frá sér lýsir hann ánægju sinni með Vopnafjörð og líkir honum við Maldíveyjar, því hann var þar í steikjandi hita og tærum sjó. Þaðan hélt Ross áfram austur fyrir, leiðangur hans kom við á Borgarfirði, en síðustu tvær nætur hefur fylgdarskútan farið inn til Seyðisfjarðar.
Ferðin hefur sóst heldur hægar en Edgley vonaðist eftir. Hann reiknaði með að hún tæki 3-5 mánuði. Hann hefur áður synt umhverfis Bretland en sagði áður en hann lagði af stað að Íslandssundið yrði hans mesta þrekraun til þessa.
Í síðustu viku átti hann bæði frábæra kafla en líka afar erfiða í miklum öldugangi. Þá lýsir hann Íslandi sem marglyttu-helvíti.
Leiðangurinn snýst þó ekki bara um sundið, heldur er líka nýttur til vísindarannsókna. Um borð er vísindafólk sem meðal annars greinir og telur hvali á leiðinni og safnar upplýsingum um örplast í hafinu.