Breytt hugmynd um Suðurleið lögð fram
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 11. apr 2023 11:47 • Uppfært 11. apr 2023 11:53
Vegagerðin hefur lagt fram hugmynd að breytingu á svokallaðri Suðurleið sem fyrirhugað er að verði ný veglína vegarins frá væntanlegum Fjarðarheiðargöngum við Egilsstaði. Með henni er vonast til að dregið verði úr umhverfisáhrifum veglagningarinnar og aukið við byggingarland.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er veglína tilkomin vegna óska frá sveitarstjórn Múlaþings. Hún hefur hins vegar verið inni í breytingu á aðalskipulagi sem tilbrigði.
Nýja veglínan, sem nefnd er veglína B á kortinu hér að neðan, fer nokkuð innar heldur en sú Suðurleið sem fram til þessa hefur verið unnið að eða sunnan við Hálsbrekku.
Þar með á að vera dregið úr líkunum á að vegurinn skeri í sundur byggð á Egilsstöðum haldi hún áfram að færast inn fyrir núverandi veg frá svæðinu sem í daglegu tali er kennt við Selbrekku.
Um leið er vonast til að umhverfisáhrif hennar verði minni. Þannig verður ekki farið í gegnum nein blæasparsvæði. Skerðing á votlendi verður 2,3 hektarar í stað 2,6 áður, skógrækt minnkar um 3,8 í stað 4,6 hektara áður og loks er farið yfir einn hektara túns- og akurlendis í stað 1,7 áður.
Veglínan er álíka löng og áður, eða um 2,8 km. Áfram er gert ráð fyrir möguleika á tengivegi við iðnaðarsvæðið á Egilsstöðum til að draga úr þungaflutningum í gegnum þorpið.
Vegagerðin hefur lagt fram fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um matsskyldu vegna breytingarinnar. Svara þaðan er að vænta seinni part maí.
Nýja veglínan er meðal þess sem kynnt verður á rafrænum íbúafundi um Fjarðarheiðargöng sem haldinn verður klukkan 17:00 á fimmtudag.
