Skip to main content

Breytt landnotkun á Djúpavogi til meðferðar hjá Skipulagsstofnun

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. jún 2023 10:06Uppfært 29. jún 2023 11:58

Sveitarstjórn Múlaþings samþykkti um miðjan mars breytingartillögu á aðalskipulagi Djúpavogs þar sem bæði atvinnu- og íbúðasvæði eru stækkuð frá fyrra skipulagi. Hið nýja skipulag er nú til meðferðar hjá Skipulagsstofnun.

Alls er um sex breytingar er að ræða í nýja skipulaginu og þar helstar að íbúa-, hafnar- og athafnasvæði bæjarins er stækkað frá því sem nú er. Þannig stækka íbúasvæði bæði við Fögruhlíðarkletta og Hammersminni, athafnasvæðið við Innri-Gleðivík stækkar og þar gert ráð fyrir nýrri sjólögn og þá gildnar hafnarsvæðið við Voginn frá því sem nú er raunin.

Í nýju skipulaginu er jafnframt gert ráð fyrir nýjum fráveitumannvirkjum og glænýrri gönguleið frá Löngubúð að Innri-Gleðivík. Rúsínan í pylsuendanum er svo líklega ný ferðamannabryggja við Hótel Framtíð en þar var lengi vel áður fyrr timburbryggja. Ný bryggja þar mun nýtast við að taka móti ferðafólki af skemmtiferðaskipum en þeim skipunum fjölgar þar sem annars staðar.

Þeim sem ekki hugnast tillögurnar hafa nú tæpan mánuð, til 27. júlí, til að koma athugasemdum sínum á framfæri við Múlaþing gegnum Skipulagsgáttina.

Nýtt aðalskipulag Djúpavogs ef það fær grænt ljós og engar athugasemdir koma fram. Kort EFLA fyrir Múlaþing