
„Brotin á sálinni, hrædd og öryggislaus vegna synjunar um fast pláss á hjúkrunarheimili“
Skyndilega var fótunum svo rækilega kippt undan henni að hún situr eftir brotin á sálinni, hrædd og öryggislaus. Allt sökum þess að henni var synjað um fast pláss á hjúkrunarheimili þrátt fyrir öldrun, baráttu við sitt annað krabbamein og almennt heilsuleysi.
Ofangreint er kjarninn í löngum pistli Sælínar Sigurjónsdóttur sem hún birti á samfélagsmiðlum snemma í gærdag.
Pistillinn, um móður hennar sem þarf mikla þjónustu sökum aldurs og alvarlegra veikinda en var engu að síður synjað um þjónustupláss á hjúkrunarheimili, hefur vakið mikla athygli austanlands og víðar.
Það ekkert nýtt að setið er um pláss á hjúkrunarheimilum landsins enda fjölgar ört í hópi aldraðra en uppbygging hjúkrunarheimila ekki tekið mið af því eins og fjölmargar fréttir síðustu árin gefa til kynna. Sú þróun mun líkast til versna til muna með síhækkandi lífslíkum Íslendinga næstu ár og áratugi ef ekkert verður að gert.
Færni- og heilsufarsnefndin
Þessa sömu sögu er að segja af hjúkrunarheimilum á Austurlandi þar sem mun fleiri eru um hituna en fá og hefur svo verið lengi. Til að bregðast við þessum vanda meðal annars, settu stjórnvöld á sínum tíma á stofn sérstaklega vistunarmatsnefnd sem nú á dögum kallast Færni- og heilsufarsnefnd. Hlutverk þeirrar nefndar að skera úr um hver kemst inn á hjúkrunarheimili hverju sinni og hver ekki ef margir banka á dyrnar. Það mat byggist á faglegri úttekt nefndarinnar sem eru að stærstum hluta skipað heilbrigðisstarfsfólki en það er sú nefnd hér austanlands sem Sælín er sárreiðust út í í pistli sínum.
„Þessi ágæta nefnd beitir 85 ára gamla móður mína ofbeldi. Móðir mín alsæl í sínu að ég hélt þangað til að allt í einu þegar enginn á von á er fótunum allt í einu kippt svo rækilega undan henni að hún situr eftir brotin á sálinni, hrædd og öryggislaus eftir að hafa verið synjað um fast pláss á hjúkrunarheimili, fær bréf þess efnis en engin ástæða nefnd. Af hverju er öryggið allt í einu tekið, hún á bara að fara heim til sín og búa þar ein af því að ókunnugt fólk segir að hún geti auðveldlega búið ein með heimahjúkrun og aðra þjónustu sem hægt er að fá hjá sveitarfélaginu.“
Of mikið gert úr hlutunum
Svörin sem Sælín fær er að hún sé að gera of mikið úr veikindum móður sinnar þrátt fyrir að hafa töluverða reynslu af aðstoð við móður sína síðustu misseri og ár. Heimahjúkrun og öryggishnappur sé nægjanleg þjónusta að svo stöddu.
„Sú sem hefur talað við mig úr þessari nefnd sagði blákalt að ég ofmæti heilsuleysi móður minnar og mat mitt á því væri bara alls ekki rétt, og líka að ég vanmæti sjálfa mig þegar ég sagðist ekki hafa heilsu til að sjá um móður mína, við skulum hafa í huga að þessi kona þekkir okkur ekkert hefur aldrei hitt okkur. Ég tel það víst að öll nefndin hugsi þannig og taki sínar geðþótta ákvarðanir eftir því. Ég ætla ekki að rekja endanlega hennar heilsufar en þetta er í annað skipti á 11 árum sem hún fær krabbamein [fyrir utan að missa eiginmanninn þegar Covid geysaði svo samskipti voru afar takmörkuð].“
Pistill Sælínar er miklu lengri en hér er frá skýrt og lesa má hann í heild hér. Sökum laga um persónuvernd og heilbrigðismál er ekki unnt að fá svör frá umræddri nefnd vegna gagnrýnins pistils Sælínar.
Hjúkrunarheimilið Dyngja á Egilsstöðum er eitt margra á Austurlandi þar sem margir bíða eftir að komast að. Sérstök nefnd metur þörfina hjá hverjum og einum.