Brugðust skjótt við vegna bágra atvinnutækifæra ungmenna á Seyðisfirði
Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþing brást fljótt við þegar ábendingar bárust um afar takmörkuð atvinnutækifæri sextán til átján ára ungmenna á Seyðisfirði í sumar. Hafa nú verið auglýst garðyrkjustörf fyrir þennan aldurshóp.
Ábendingar höfðu borist heimastjórn Seyðisfjarðar snemma þessa mánaðar frá foreldrum ungmenna á þessum aldri þar sem bent var á að Vinnuskóli Múlaþings væri aðeins ætlaður ungmennum milli 13 og 16 ára aldurs. Það hefði í för með sér að allnokkur ungmenni á sextánda og sautjánda aldursári yrðu að líkindum atvinnulaus í sumar því hvergi væri neitt annað að hafa í bænum.
Umhverfis- og framkvæmdaráð tók strax undir að við svo mætti ekki búa og var samþykkt samhljóða að fela garðyrkjustjóra sveitarfélagsins að auglýsa sumarstörf fyrir ungmenni allt upp í átján ára aldur á Seyðisfirði. Þar er um að ræða störf við almenna garðyrkju hjá vinnuskólanum en hann er starfræktur frá 10. júní fram til 15. ágúst.
Ungmennum frá þrettán til átján ára aldurs gefst kostur á að starfa í vinnuskólanum út sumarið. Mynd Múlaþing