Brýn þörf á fræðslu ef lækka á kosningaaldur niður í sextán ár

Verði frumvarp til laga þess efnis að lækka skuli kosningaaldur niður í sextán ár, eins og tíu þingmenn hafa lagt fram, að veruleika er bráðnauðsynlegt að ríki og eða sveitarfélögin kynni málið ítarlega fyrir þeim ungmennum sem skyndilega mega kjósa á þeim aldri.

Þetta er meginþema bókunar frá síðasta fundi ungmennaráðs Fjarðabyggðar sem fékk það verkefni meðal annars að leggja mat á umrætt frumvarp. Það er Andrés Ingi Jónsson auk níu annarra þingmanna úr flokkum Pírata, Viðreisnar og Samfylkingar sem lagt hafa frumvarpið fram. Því er ætlað að veita ungu fólki tækifæri til að taka virkan þátt í mótun samfélagsins og styrkja þar með lýðræði í landinu eins og það er orðað.

Ungmennaráðið setur reyndar spurningarmerki við hvort fólk á aldrinum 16 til 18 ára sé komið með nægilegan þroska til að taka þátt í kosningum en að sögn Margarette Bjargar Sveinbjörnsdóttur, eins aðalmanns í ráðinu, er þó lykilatriði að fram fari ítarleg kynning á hvað það merki að kjósa og hvernig það ferli gengur fyrir sig verði frumvarpið að lögum.

„Það eru alveg til unglingar á þessum aldri sem eru aðeins að spá í stjórnmálum en það líka mjög margir sem hugsa ekkert um þetta á þessum aldri heldur eru önnum kafnir að lifa sínu lífi. Ef þetta verður að lögum er þó enginn vafi hjá okkur í ungmennaráðinu að fram þarf að fara góð ítarleg kynning og þá helst í skólunum sjálfum með fundum eða fyrirlestrum af einhverju tagi og helst alveg niður í fimmtán ára aldur svo krakkar sem kjósa ári síðar viti um hvað þetta snýst um. Við vorum að spá í þroskann vegna þess að það er alveg hægt að kjósa þó maður viti ekki neitt og hafi ekki kynnt sér stefnur neinna flokka en það er kannski ekki alveg það sem kosningar snúast um. Sjálf er ég aðeins farin að fylgjast með þessu svona af og til og mér sýnist þörf á því ef maður ætlar að hafa einhverja vitneskju um hlutina þegar maður fer á kjörstað. En það eru ekki margir krakkar í kringum mig að spá neitt mikið í þessu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.