Skip to main content

Brýna fyrir Austfirðingum að fara afar varlega með eld sökum þurrka

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. maí 2025 14:00Uppfært 13. maí 2025 14:37

Almannavarnarnefnd Austurlands brýnir fyrir íbúum og gestum í fjórðungnum að fara sérstaklega varlega með eld um þessar mundir. Sökum óvenjulega mikils hita, þurrks víðast hvar og þeirri staðreynd að gróður er aðeins rétt að byrja að taka við sér er hættan á gróðureldum mun meiri en annars væri raunin.

Eins og greint var frá á Austurfrétt í gær hefur maímánuður verið óvenjulega hlýr og úrkomulítill hingað til. Ekki er útlit fyrir að lát verði á næstu tvær vikurnar hið minnsta ef marka má allnokkrar veðurstofur bæði hérlendis og erlendis. Þvert á móti eru sterkar líkur á að hitastig austanlands langt fram á næstu viku verði yfir hádaginn milli 15 og 20 stig og sólin muni ekki láta sitt eftir liggja þann tíma. Ekki er von á neinni vætu að ráði austanlands fyrr en í fyrsta lagi seint í næstu viku. Eru allir fimm miðlarnir þar sammála þó vissulega verði að taka langtíma veðurspám með ákveðnum fyrirvara.

Haraldur Geir Eðvaldsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Múlaþings, segir að sitt teymi hafi nú þegar slökkt í nokkrum lítilsháttar sinueldum á Héraði þar sem af er þessum mánuði og sama er uppi á teningnum í Fjarðabyggð þar sem slökkvilið hefur þurft að koma til aðstoðar í slíkum tilfellum.

„Vorin og snemmsumars eru alltaf hættulegustu tímarnir fyrir gróðurelda og við nú þegar farið nokkrum sinnum á vettvang vegna lítils háttar vandræða. Ástæðan fyrir að hvers kyns eldur er sérstaklega hættulegur á þessum árstíma er að bæði gróður og tré eru rétt að ná sér eftir veturinn. Tréin eru rétt að byrja að taka upp vatn og sömu sögu má segja um gras og tún. Grænt grasið merkið að þar er komin vökvi sem er ákveðin vörn gegn eldi og það sama gildir um tréin. Þau þurfa tíma eftir veturinn til að taka upp vatn á vorin og lauf þeirra þurfa að ná lit til að búa til vörn gegn eldsvoðum. Svo þessi tími er sérstaklega varhugaverður. Ég hvet fólk sterklega til að fara mun varlegar með eld í náttúrunni nú um stundir og fólk verður að gæta þess að farga til dæmis kolum úr kolagrillum á viðunandi hátt en ekki henda þeim á jörðina.“

Sinueldar ekki svo óalgengir á Íslandi en hætta af þeim hefur aukist til muna með stóraukinni skógrækt víða um landið. Mynd GG