Skip to main content

Brýna fyrir innviðaráðherra að setja uppbyggingu Suðurfjarðavegar í forgang

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. des 2023 16:16Uppfært 08. des 2023 16:18

Fjórir þingmenn sjálfstæðisflokks hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar þess efnis að flýta skuli uppbyggingu Suðurfjarðavegs í samgönguáætlun. Sá vegkafli, frá Reyðarfirði til Breiðdalsvíkur, sé einn sá allra hættulegasti á þjóðvegi 1.

Samkvæmt drögum að endurskoðaðri samgönguáætlun sem lögð var fram á Alþingi í október er nú hugmyndin að áfangaskipta uppbyggingu Suðurfjarðavegar í stað þess að klára verkið allt í einu. Áætluð verklok verði einhvern tíma á bilinu 2034 til 2038 eða í besta falli að tíu árum liðnum en vegaframkvæmdir á Austurlandi samkvæmt gildandi samgönguáætlun eru töluvert á eftir áætlun.

Þeir fjórir þingmenn sem hvetja Sigurð Inga Jóhannsson, innviðaráðherra, til að setja Suðurfjarðaveg mun framar í röðina eru þeir Njáll Trausti Friðbertsson, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Ásmundur Friðriksson. Tveir þeir fyrrnefnu þingmenn fyrir Norðausturkjördæmi.

Ljóst er að Suðurfjarðavegur er mikill farartálmi með hættulegum vegarköflum og þremur einbreiðum brúm, þ.m.t. brúnni yfir Sléttuá í Reyðarfirði sem er umferðarþyngsta einbreiða brúin á Austurlandi. Vegarkaflinn milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar þykir sérlega hættulegur með mörgum blindhæðum og kröppum beygjum og er auk þess að mestu leyti utan þjónustusvæðis farsímasambands.Kaflinn milli Fáskrúðsfjarðar og Breiðdalsvíkur hefur verið metinn áhættumesti vegarkafli landsins í áraraðir í skýrslum EuroRAP um öryggi vega. Á undanförnum árum hafa orðið alvarleg slys á þessum kafla. Í ljósi þess hve hættulegur vegarkaflinn er og með tilliti til ört vaxandi umferðarþunga, m.a. þungaflutninga, þarf að setja Suðurfjarðaveg í forgang í samgönguáætlun.

Alvarleg slys hafa orðið á Suðurfjarðavegi undanfarin ár og áratugi og afar brýnt að mati marga að bæta þá leiðina fyrr en síðar. Mynd Visit Austurland