Skip to main content

Brýnt að finna varanlega lausn landvörslu á Víknaslóðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. mar 2025 14:11Uppfært 03. mar 2025 14:13

Þau tvö félög sem hafa gegnum tíðina séð um alla landvörslu, uppbyggingu og viðhald gönguleiða á Víknaslóðum hafa óskað eftir að sveitarfélagið Múlaþing taki við þeim keflunum frá og með sumrinu 2026.

Þetta kemur fram í sérstakri greinargerð sem bæði Ferðafélag Fljótsdalshéraðs (FFF) og Ferðamálahópur Borgarfjarðar eystri (FB) sendu sveitarfélaginu fyrir nokkru en viðbrögð við þeirri greinargerð var rædd á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings í kjölfarið.

Í greinargerðinni er farið yfir að gönguleiðir þær sem stikaðar voru á sínum tíma og njóta sívaxandi vinsælda ferðafólks á þessu fallega og tiltölulega lítt snortna svæði hafi frá upphafi verið frumherjaverkefni áhugafólks um ferðaþjónustu á Borgarfirði eystra. Öll sú vinna hafi verið unnin í sjálfboðavinnu og svæðið sé í dag eitt best skipulagðasta göngusvæði landsins. Þrátt fyrir það beri bæði félögin enn alla ábyrgð á að afla fjár og taka á sig þann halla sem á slíku verkefni getur komið til ár hvert.

„Núna er komið að þeim tímapunkti að FFF og FB treysta sér ekki lengur til að leiða uppbyggingu og viðhald gönguleiðarinnar á Víknaslóðum og vonast til þess að Múlaþing taki við keflinu sem umsjónarmaður landvörslu frá og með sumrinu 2026. FFF mun þó áfram sinna landvörslu á hinu friðlýsta svæði Stórurðar fyrir Umhverfisstofnun.“

Ástæðurnar margar 

Ástæður þessa eru nokkrar að því er fram kemur í greinargerðinni: Árleg fjáröflun sé tímafrek og krefjandi, félögin taka sjálf á sig tap vegna hugsanlegs hallareksturs ár hvert, landvörður Víknaslóða þarf nú að koma að gönguleiðum að svæðinu í Stórurð auk þess sem húsnæðismál landvarða séu í uppnámi eftir að Múlaþing lagðist gegn því að komið yrði fyrir 14 fermetra vinnuskúr sem leysa átti það vandamál tímabundið.

Á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings í kjölfarið var lögð fram sú tillaga að brýnt væri að finna varanlega lausn á landvörslu á Víknaslóðum til framtíðar. Fól ráðið verkefnisstjóra umhverfismála og starfsmanni heimastjórnar Borgarfjarðar eystra að vinna að lausn í samráði við formann ráðsins og sveitarstjóra Múlaþings.

Það kostar sitt að stika og viðhalda gönguleiðum og þjónustu ýmsri á fáförnum stöðum á borð við Víknaslóðir og tími til kominn að sveitarfélagið axli sína ábyrgð í þeim efnum. Mynd Múlaþing