Skip to main content

Brýnt að Suðurfjarðavegur fari í forgang í næstu samgönguáætlun

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. mar 2025 10:08Uppfært 11. mar 2025 10:27

Sú staðreynd að ekki var unnt að koma Stöðfirðingum til hjálpar í töluverðan tíma þegar mikið óveður setti þar allt á annan endann í febrúar sýnir glögglega brýna þörfina á uppbyggingu Suðurfjarðavegar. Samtök sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) brýna fyrir samgönguráðherra að vegurinn sá fari í forgang í næstu samgönguáætlun.

Innan samgönguráðuneytisins er nú unnið að uppstokkun á gildandi samgönguáætlun en slík innviðamál eru hátt á borði nýrrar ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur samkvæmt stjórnarsáttmála. Samgönguráðherrann Eyjólfur Ármannsson hefur boðað töluverðar breytingar frá gildandi áætlun en þær verða ekki gerðar ljósar fyrr en með haustinu.

Óvíða er innviðaskuldin meiri en austanlands og fyrir skemmstu lét stjórn SSA bóka þá kröfu sína á hendur samgönguráðherra að uppbygging Suðurfjarðavegarins verði í forgangi í næstu áætlun.

Í því mikla óveðri sem gekk yfir landið fyrr í febrúar sköpuðust gríðarlega erfiðar aðstæður á Stöðvarfirði sem voru enn eitt dæmið um þá innviðaskuld sem við stöndum frammi fyrir. Ekki var hægt að koma Stöðfirðingum til aðstoðar í mesta fárviðrinu sem þar geisaði vegna aurflóðahættu, veðurhams og þar sem þjóðvegur 1 fór í sundur nærri byggðalaginu. Íbúar börðust því einir við að draga úr þeirri eyðileggingu sem illviðrið olli. Úr sér genginn Suðurfjarðavegur stóðst ekki álagið sem úrhellið var og ekki bætti símasambandsleysið frá Hafnarnesi og til Stöðvarfjarðar úr skák. Mikil mildi var að ekki urðu slys á fólki við þessar aðstæður.Stjórn SSA brýnir fyrir samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að beita sér fyrir því að uppbygging Suðurfjarðavegar verði í forgangi í nýrri samgönguáætlun sem hann hefur boðað á árinu og að farsímasamband á þjóðvegakerfinu verði tryggt