Skip to main content
Mynd frá Unaósi.

Brýnt talið að búseta verði áfram að Unaósi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. des 2023 15:13Uppfært 13. nóv 2024 14:46

Brýnt er að gera allt sem mögulegt er til að koma aftur á fastri búsetu á jörðinni Unaósi við Selfljót í Hjaltastaðaþinghá að mati heimastjórnar Fljótsdalshéraðs.

Fjárhús og hlaða að Unaósi, sem er síðasti sveitabærinn áður en vegfarendur leggja yfir varasaman fjallveg Vatnsskarðs eystra norðanmegin, urðu eldi að bráð í mars síðastliðnum og í þeim eldsvoða fórst allt sauðfé sem ung hjón sem jörðina leigðu af ríkinu héldu á staðnum. Þar með varð fjárbúskapur á staðnum vonlaus með öllu og samkvæmt heimildum Austurfréttar sýndi ríkið á þeim tíma engan áhuga að koma til móts við ungu hjónin á neinn hátt vegna eldsvoðans. Fyrrum ábúandi á staðnum, Þorsteinn Bergsson, gjarnan þekktur úr vinsælum spurningaþáttum í Ríkissjónvarpinu, gagnrýndi einmitt áhugaleysi ríkisins á sínum tíma að koma jörðinni í hendur áhugasamra aðila.

Nú hefur Framkvæmdasýslan - Ríkiseignir formlega óskað upplýsinga frá Múlaþingi um hugsanlega framtíð staðarins en fyrir utan að þar hefur verið hefðbundinn sauðfjárbúskapur er Unaós jafnframt sögufrægur staður enda kenndur við Una Garðarsson, landnámsmann. Hann á að hafa lagt skipi sínu á sínum tíma við hamra þar nálægt er Knörr eru kallaðir. Þar skammt frá er Krosshöfði og þar er Óshöfn sem lengi var ein merkasta höfn landsins. Töluvert er um að ferðafólk, innlent sem erlent, leggi leið sína þangað enda gönguleiðir góðar.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs brýnir í bréfi til Framkvæmdasýslunnar - Ríkiseigna að allt verði gert til að áfram verði sauðfjárbúskapur á staðnum. Aðeins þannig verði framtíðarbúseta tryggð. Heimastjórnin bendir einnig á að föst búseta á býlinu sé mikilvægur liður í að auðvelda búskap á jörðum þar í kring en búseta í grennd hafi grisjast mikið síðustu ár og áratugi sem geri til dæmis smölun fjár erfiða. Ekki síður sé Unaós mikilvægur staður varðandi öryggi vegfarenda ef ófært er yfir Vatnsskarðið.

Í mars á þessu ári fórust 260 nautgripir, sauðfé og geitur þegar eldur blossaði upp í fjárhúsi og hlöðu Unaóss. Frekari búskapur þar harla ólíklegur nema eigandinn, ríkið, endurbyggi það sem brann. Mynd AE