Búðin á Borgarfirði eystri fær tveggja milljóna króna styrk
Búðin á Borgarfirði eystri hlaut um áramótin tveggja milljóna króna styrk frá Byggðastofnun eftir samþykkt innviðaráðherra en alls voru fimmtán milljónir í pottinum til að styrkja dagvöruverslanir í fámennum byggðalögum í landinu.
Styrkir þessir hafa síðustu ár verið sérstaklega veittir til að létta undir rekstri dagvöruverslana á fámennum svæðum sem eru langt frá stærri byggðakjörnum. Styrkirnir eru hluti af stefnumótandi byggðaáætlun sem tók gildi árið 2022 og er í gildi til ársins 2036.
Það engin launung að verslunarrekstur í fámennum byggðakjörnum er bæði flókinn og erfiður. Flókinn sökum þess að langt getur verið að fara eftir vörum eða í tilfellum eru vöruflutningar með þeim hætti að meta verður birgðastöðu með löngum fyrirvara. Erfiður sökum þess að jafnvel þó heimafólk sýni mikinn lit og versli eins og hægt er á heimaslóð dugar það á köflum varla fyrir mannsæmandi launum starfsfólks. Það var til dæmis raunin á Stöðvarfirði á liðnu ári þegar verslunin Brekkan hætti starfsemi og var seld en þá höfðu rekstraraðilar um langa hríð haft lítið upp úr krafsinu. Litlu munaði líka að dagvöruverslun leggðist af á Vopnafirði fyrir tveimur árum sem hefði þýtt töluverð ferðalag til að kaupa helstu nauðsynjar. Þá var um stund engin verslun heldur á Borgarfirði eystri áður en Búðin kom til því forveri hennar, Eyrin kjörbúð, hætti starfsemi 2017, vegna rekstarerfiðleika. Þurfti samstillt átak heimamanna til að koma nýrri verslun af stað tæpu ári síðar.
Gamla pósthúsinu á Borgarfirði eystri var breytt í dagvöruverslun og komu velflestir heimamenn að því að koma henni á laggirnar á sínum tíma. Mynd Visit Austurland