Skip to main content

Búið að kynna matsgerðir vegna tjóns á fjölbýlishúsunum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. apr 2023 08:00Uppfært 06. apr 2023 08:00

Matsgerðir vegna tjóns sem varð á fjölbýlishúsunum við Starmýri í Neskaupstað í snjóflóðunum þar í byrjun síðustu viku var kynnt fyrir eigendum íbúða þar í gær. Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ) varar við að of lág sjálfsábyrgð gæti reynst tvíeggjað sverð með auknum almennum kostnaði.


Þetta kemur fram í tilkynningu sem NTÍ sendi frá sér í gær. Starfsmenn hennar komu til Norðfjarðar strax í síðustu viku og hafa síðan verið að skoða tjónið ásamt starfsmönnum Eflu og Verkís.

„Áhersla hefur verið lögð á að flýta mati og uppgjöri í samvinnu við eigendur eignanna. Uppgjöri er nú lokið á nánast öllum lausafjártjónum að frátöldum munum í einni geymslu þar sem eigandi var fjarverandi og gat ekki gefið matsmönnum aðgang að henni til tjónamats,“ segir þar.

Í gær voru matsgerðir fyrir þær 10 íbúðir sem skemmdust í fjölbýlishúsunum við Starmýri 17-19 og 21-23 kynnt fyrir eigendur. Minniháttar tjón varð á tveimur einbýlishúsum við Mýrargötu og á mat á því að liggja fyrir á allra næstu dögum.

Komið hefur fram töluverð gagnrýni á lög um náttúruhamfaratryggingar í kjölfar snjóflóðanna því íbúar geta setið uppi með 600.000 króna sjálfsábyrgð áður en tryggingin tekur gildi, 400 þúsund fyrir fasteignina og 200.000 vegna innbús. Þá er ótalið tjón á bifreiðum sem þurfa að vera í kaskó til að tryggingin nái yfir þá. Rótarýklúbbur Norðfjarðar hóf í vikunni söfnun til að hjálpa fólki að brúa þennan mismun.

Í tilkynningu NTÍ segir að hafa verið í huga að lægri sjálfsábyrgð þýði ærri iðgjöld, auk þess sem lægri sjálfsábyrgð þýddi áhættu fyrir sjóinn sjálfar. Tjónamál eru stjórnsýslumál og er hætta á að kostnaður af umsýslu minniháttartjóna yrði umtalsverður.

Dæmi er tekið um jarðskjálfta í útjaðri höfuðborgarsvæðisins sem valdi 200-400 þúsund króna tjóni á fjölmörgum húsum vegna minniháttar skemmda á innanstokksmunum eða rispum á gólfefni.

Með síðustu var lagabreytingu eigin áhætta vegna fasteignar hækkuð úr 85 þúsund í 400 þúsund en um leið sjálfsábyrgð vegna tjóns umfram það lækkað úr 5% í 2%. NTÍ segir það hafa verið til hagsbóta fyrir einstaklinga sem verða fyrir tjóni upp á meira en 8 milljónir á húseign og 4 milljónir á lausafé.

Fyrir liggur samantekt á meðaltali eigináhættu innbús og lausafjár í snjóflóðunum. Meðaltalið er 4,7%, hæsta hlutfallið 11,7% en lægst 2,2%. Lægst er hlutfallið hjá þeim sem urðu fyrir mestu tjóni en mest hjá þeim sem urðu fyrir minnstu tjóni.

Fulltrúar NTÍ koma aftur til Norðfjarðar eftir páska til að klára þau mál sem ekki náðist að ljúka í gær.