Búið að lagfæra velflestar skemmdir á byggingum á Stöðvarfirði eftir óveðrið í vetur
Með samstillu átaki hefur tekist að ljúka við að lagfæra velflestar skemmdir sem urðu á byggingum á Stöðvarfirði í gríðarlegu óveðri í byrjun febrúar sem olli tugmilljóna tjóni á húsum, bílum og innviðum í þorpinu.
Skemmdir vegna óveðursins urðu hvað mestar á Stöðvarfirði og nágrenni þó áhrif veðurofsans hefði gætt um stóran hluta Austurlands. Þök rifnuðu þar af allnokkrum húsum, rúður sprungu, bílar skemmdust, tré brotnuðu og ýmislegt lauslegt fauk á haf út. Þá brotnaði mikið úr bökkum Innri-Einarsstaðarár sem meðal annars rennur við hlið skólahúsnæðis þorpsins.
Bjarni Stefán Vilhjálmsson, verkstjóri, sem er einn þeirra sem staðið hefur í stafni við lagfæringar en fjölmargir hafa lagt hönd þar á plóg. Hann staðfestir að tekist hafi að koma velflestu í horf að nýju. Það eina sem kannski þurfi að hafa áhyggjur af nú sem enn er eftir séu varnargarðar við bakka árinnar sem þarf að endurreisa eða lagfæra áður en næsti vetur gengur í garð.
Þarf að gerast í sumar
„Eftir því sem ég kemst næst hefur öllum gengið mjög vel að fá sín tjón bætt af hálfu tryggingafélaganna. Sjálfur fékk ég allt bætt vandræðalaust og hef ekki heyrt annað en sama hafi verið uppi á teningnum hjá öðrum sem fyrir tjóni urðu. Heilt yfir er búið að lagfæra þau hús sem skemmdust að mestu leyti þó eftir sé einhver vinna á stöku stöðum. Vandamálið sem eftir stendur eru varnirnar við ánna sem ég myndi halda að þyrfti að fara í að lagfæra fyrir haustrigningarnar. Mér skilst reyndar að Ofanflóðasjóður sé eitthvað að skoða að koma að því verkefni en hugsanlega þarf sveitarfélagið að grípa inn í ef langan tíma tekur að fá svör frá sjóðnum. Ég býð ekki í það ef ekki tekst að færa lagfæra bakkana og grjótvarnir meðfram ánni því hún liggur til dæmis svo nálægt skólanum. Það þarf að færa árfarveginn að hluta til og fjarlægja þessa kröppu beygjur sem á henni eru en þar brotnaði sérstaklega mikið úr í veðurofsanum. Ég tel að þetta þurfi að vinna í sumar til að vel sé því það verður ekkert lagfært þegar komið verður fram á næsta vetur.“