Búið að loka Möðrudalsöræfum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. okt 2023 11:31 • Uppfært 10. okt 2023 11:32
Veginum yfir Möðrudalsöræfi var lokað fyrir allri umferð í morgun vegna vondrar veðurspár. Viðbúið er að grípa þurfi til lokana víðar þegar líður á daginn.
Gular viðvaranir taka gildi fyrir veðurspásvæðin Austfirði og Austurland að Glettingi á hádegi og gilda í tæpan sólarhring. Spáð er norðvestan stormi og hríð.
Á Austfjörðum er búist við heldur hvassara veðri, 18-25 m/s með 35 metrum í hviðum en 15-23 m/s á Austurlandi. Þar bætist við rigning eða slydda og trúlega snjókoma á fjallvegum.
Samkvæmt tilkynningu Vegagerðarinnar er hætt við að krapa eða snjó á Fjarðarheiði og Fagradal í kvöld og nótt. Hálka er þegar skráð á vegina yfir Fjarðarheiði, Vatnsskarð, Fagradal og Mjóafjarðarheiði.
Veginum yfir Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði var lokað í morgun. Varað er við 40-50 m/s hviðum frá Eyjafjöllum og austur í Berufjörð til morguns. Landsnet hefur bent á að hvassviðrið geti þar valdið rafmagnstruflunum.