Skip to main content

Búið að opna Öxi öðru sinni

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. apr 2024 11:08Uppfært 22. apr 2024 11:08

Vegurinn yfir Öxi var opnaður í annað skiptið á þessu vori. Hún var opnuð snemma í mars en lokaðist aftur. Í framhaldinu verður staðan tekin á vegunum yfir Breiðdalsheiði og Mjóafjarðarheiði.


Öxi var upphaflega opnuð 8. mars en lokaðist nokkrum dögum síðar. Ný tilraun var gerð skömmu fyrir páska en þá gekk í mikla snjókomu. Þriðja atrenna var í síðustu viku og eftir um þriggja daga vinnu opnaðist vegurinn á laugardag.

Sveinn Sveinsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi, segir að á Öxi hafi verið kominn talsvert mikill snjór og fastur. Í dag verður unnið að því að breikka ruðninginn en vegurinn er á köflum einbreiður.

Breiðdalsheiði er enn ófær en ekki er talið að snjór sé á löngum kafla á henni. Til stendur að byrja mokstur á henni þegar vinnan er búin á Öxi.

Verið er að kanna stöðuna varðandi Mjóafjarðarheiði. Jeppafólk var þar á ferðinni um helgina og starfsmenn Vegagerðarinnar ætla sér að skoða aðstæður síðar í vikunni. Í framhaldinu verður ákvörðun tekin um mokstur og síðar opnun þar.