Skip to main content

Búið að samþykkja skipulag vega Fjarðarheiðarganga

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. des 2023 17:05Uppfært 13. des 2023 17:06

Skipulagsstofnun hefur samþykkt breytingar á aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar vegna væntanlegra vega og annarra tengingar við Fjarðarheiðargöng.


Stofnunin samþykkti í byrjun nóvember breytinguna Héraðsmegin en hún var afgreidd af sveitarstjórn Múlaþings um miðjan september. Þar er tekið á breyttri legu þjóðvegarins sem er færður suður fyrir Egilsstaði.

Um það voru talsverðar deilur en hópur fólks hefur viljað fara norður fyrir bæinn eða út fyrir Eyvindará. Í voru kom fram breytingartillaga á hinni svokölluðu Suðurleið þar sem hún var færð enn sunnar eða innar til að gefa byggðinni meira pláss til að þróast.

Í dag samþykkti stofnunin síðan skipulagið Seyðisfjarðarmegin en það var afgreitt af sveitarstjórn um miðjan júní. Mesta breytingin þeim megin snýr að golfvellinum. Hann þarf að færa því vegurinn þverar hann. Í breyttu aðalskipulagi er hann skilgreindur sem óbyggt svæði. Einnig þarf að færa brunntökusvæði vatnsbólsins.

Breytingin tekur gildi þegar hún hefur verið birt í Stjórnartíðindum.