Skip to main content

Byggðamál hvorki gæluverkefni né góðgerðarstarf

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. maí 2025 09:52Uppfært 09. maí 2025 09:55

Stjórnarformaður Byggðastofnunar telur ýmsa umræðu um byggðamál einkennast um of af einhvers konar verndarsjónarmiðum menningar og arfs landsmanna en telur það beinlínis ranga nálgun. Byggðamál öll séu harðkjarna hagsmunamál en ekki gæluverkefni né góðgerðarstarf.

Þetta kom meðal annars fram í erindi Óla Halldórssons, stjórnarformanns á ársfundi stofnunarinnar sem fram fór í Frystihúsinu á Breiðdalsvík í gær. Þar héldu fjölmargir erindi er varða byggðamál í stóru samhengi samhliða því að gefin var út ársskýrsla Byggðastofnunar fyrir síðasta ár.

„Stundum getur umræðan um þessi mál [byggðamál] orðið dálítið grunn að mínu mati og byggðalegar aðgerðir réttlættar með einhvers konar vernd. Það er að segja að við séum í einhverjum verndaraðgerðum eins og að varðveita menningararf og sögu. Færa má margvíslegar og ólíkar röksemdir fyrir viðhaldi byggða um land allt. Byggðamál eru ekki gæluverkefni eða einhvers konar góðgerðastarf. Þó viðhald byggðar um

landið varðveiti vissulega menningararf þjóðarinnar þá eru byggðamálin fyrst og fremst harðkjarna hagsmunamál. Þau eru samofin þjóðarhag hvernig sem á það er litið.

Stjórnarformaðurinn fór vítt yfir sviðið en tiltók sérstaklega að helstu tekjuliðir þjóðarbúskaps Íslendinga sé nábundnir hinum dreifðu byggðum beint eða óbeint sé grannt skoðað.

Meginstólpar verðmætasköpunar atvinnulífsins, svo sem fiskveiðar, iðnaður, landbúnaður, orka og ferðaþjónusta verða ekki skilin frá byggðunum og tekna af þeim ekki aflað án búsetu og innviða um allar þessar byggðir. Drifkraftur nýsköpunar, hugmyndaauðgi og önnur þekkingardrifin óstaðbundin vinna á sér heldur ekki lögheimili í borgum heldur allt eins hvarvetna um byggðir landsins.“

Fólk vill búa þar sem það býr

Forstjóri stofnunarinnar, Arnar Már Elíasson, tók að stórum hluta í sama streng og vitnaði í kannanir og úttektir Byggðastofnunar sem sýna óumdeilt að fólk vill almennt búa þar sem þegar býr í dag. Gilti þá einu hvort um er að ræða Skagafjörð, Breiðdalsvík, Klaustur eða Mosfellsbæ.

Í máli hans kom skýrt fram að ein sterkasta byggðaðgerðin nú um stundir fælist í uppbyggingu starfsaðstöðu fyrir óstaðbundin störf. Engin vafi gæti leikið á að meiri dreifing ríkisstarfa um allt landið myndi verða öllum landsmönnum ti hagsbóta.

Óstaðbundin störf eru eitt stærsta byggðamál síðustu ára og mun stofnunin róa öllum árum að því að efla framgang þeirra áfram, ekki eingöngu með útdeilingu styrkja og eftir atvikum lánveitingum heldur einnig með stöðugri uppfærslu mælaborða um staðsetningu ríkisstarfa annars vegar og lausra fjarvinnustöðva um land allt hins vegar. Auk þessa hefur stofnunin sjálf riðið á vaðið með góðu fordæmi en um fimmtungur starfsmanna hennar eru þegar staðsettir utan höfuðstöðva hennar sem þó eru á Sauðárkróki. Mörgum störfum er vissulega ekki hægt að sinna óstaðbundið en mikil tækifæri liggja í þeim störfum þar sem slíkt er mögulegt fyrir hinar dreifðu byggðir. Þannig má dreifa landsmönnum betur um landið sem er okkur öllum til hagsbóta.