Byggðaverkefnið Sterkur Stöðvarfjörður komið af stað
Uppbygging á Balanum í hjarta Stöðvarfjarðar var það verkefni sem fékk flest atkvæði þátttakenda á íbúaþingi á Stöðvarfirði um síðustu helgi. Þingið markar upphaf þátttöku Stöðvarfjarðar í verkefninu Brothættar byggðir.Um sextíu manns á öllum aldri tóku þátt í þinginu sem haldið var laugardag og sunnudag í grunnskólanum. Var þar rætt um tækifæri og áskoranir byggðarinnar til framtíðar út frá ýmsum vinklum.
Eftir að málin höfðu verið rædd í hópum var síðasta verk þingfulltrúa á sunnudeginum að forgangsraða þeim verkefnum sem þeir vildu helst sjá hrint í framkvæmd. Nýting Balans, sem fjölskylduvæns og aðlaðandi útivistarsvæðis, fékk þar flest atkvæði.
Ýmsar hugmyndir um atvinnustarfsemi
Það vantar íbúðarhúsnæði á Stöðvarfirði og sagt var: „Hindra að við verðum sumarbústaðabyggð!“. Varðandi atvinnuhúsnæði, var m.a. vísað til Sköpunarmiðstöðvarinnar og fleiri staða. Sköpunarmiðstöðin var stofnuð árið 2011 í aflögðu frystihúsi.
Horft er til margvíslegrar atvinnusköpunar, t.d. framleiðslufyrirtækja, þ.m.t. matvælaframleiðslu og kallað var eftir öflugri nettenginu vegna fjarvinnu. Stöðfirðingar sjá aukin tækifæri í ferðaþjónustu, m.a. með góðu tjaldsvæði, fjölbreyttri afþreyingu og kraftmikilli markaðssetningu.
Áhugi er á iðnaðareldhúsi sem nýst gæti fólki í eigin matvælaframleiðslu og rædd voru tækifæri í safnamálum. Stungið var upp á að á Stöðvarfirði verði miðstöð fornleifarannsókna á Austurlandi, en fornleifarannsóknir í Stöð benda til þess að saga landnáms sé eldri en hingað til hefur verið talið.
Auk góðra göngustíga dreymir Stöðfirðinga um fleiri lífsgæði sem íbúar og gestir geti notið. Þar má nefna lengri opnunartíma sundlaugar og að koma upp sána á „Öldunni“ sem er vinsælt svæði fyrir sjósund. Þá er áhugi á að bæta aðstöðu til íþróttaiðkunar og bæta almenningssamgöngur og miðla upplýsingum um þær, m.a. vegna sóknar barna á íþróttaæfingar annars staðar.
Kallað var eftir úrbótum á Suðurfjarðarvegi og að gerð verði göng milli Stöðvarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar.
Fram komu óskir um að bæta ýmsa þjónustu, t.d. hraðbanka og koma upp aðstöðu fyrir fagfólk sem kemur í skemmri tíma, s.s. sjúkraþjálfarar, hársnyrtar og fleiri.
Verkefnisstjóri ráðinn
Spurningunni: „Hvað eigum við?“ var varpað fram á þinginu. Þar kom í ljós að af nægu er að taka. Á Stöðvarfirði eru einstakar náttúruperlur, margvíslegir innviðir, mannauður og góður andi meðal bæjarbúa. Fram kom að Stöðfirðingar taka vel á móti nýju fólki. Þetta er sú auðlegð sem unnið verður með áfram í verkefninu sem á þinginu hlaut heitið „Sterkur Stöðvarfjörður“.
Að verkefninu standa, auk Byggðastofnunar, sveitarfélagið Fjarðabyggð, SSA og Austurbrú auk íbúa á Stöðvarfirði. Á þinginu voru tveir fulltrúar heimafólks í verkefnisstjórn, þeir Bjarni Stefán Vilhjálmsson og Bryngeir Ágúst Margeirsson. Ráðinn hefur verið verkefnisstjóri, Valborg Ösp Á. Warén, sem tekur til starfa í sumar og flytur þá til Stöðvarfjarðar. Sigurborg Kr. Hannesdóttir hjá Ildi, stýrði þinginu.
Stöðvarfjörður er þrettánda byggðin sem tekin er inn í Brothættar byggðir. Tvær austfirskar byggðir, Borgarfjörður og Breiðdalsvík, hafa lokið þátttöku þar. Gert er ráð fyrir að verkefnið á Stöðvarfirði vari næstu fjögur ár.