Byggja þarf allt að 36 íbúðir árlega í Múlaþingi næstu árin
Byggja þarf 10 til 36 íbúðir árlega í Múlaþingi næstu tíu árin samkvæmt nýju mati sveitarfélagsins á húsnæðisþörfinni næsta áratug.
Þetta kemur fram í nýrri húsnæðisáætlun Múlaþings til ársins 2031 en þar er tekin staðan á þörfinni í hverju þéttbýli innan sveitarfélagsins og áætlunin miðuð við hinar margvíslegu breytur sem geta haft þar áhrif á. Stuðst er við fjölda rannsókna bæði stofnana og félagasamtaka auk viðtala við heimastjórnir á hverjum stað fyrir sig.
Þannig eru gerðar þrenns konar áætlanir þennan tíma eða lágspá, miðspá og háspá en það er gert sökum þess hve lítið þarf að gerast til að hafa umtalsverð áhrif á markaðinn upp eða niður. Samkvæmt lágspá er lágmarkið tíu til tólf nýjar íbúðir árlega, miðspá gerir ráð fyrir 21 til 25 íbúðum á ári hverju en gangi háspáin eftir þarf að byggja að minnsta frá 31 íbúð og upp í 36 íbúðir í sveitarfélaginu hvert ár.
Lítil fjölgun fólks næstu ár
Áætlunin gerir ráð fyrir að fólki fjölgi í sveitarfélaginu öllu um 4,1 prósent til ársins 2025 en um 10,4 prósent yfir tíu ára tímabil en í báðum tilfellum er tekið mið af miðspá.
Þannig er gert ráð fyrir 1 prósent fjölgun fólks á Djúpavogi næstu tíu árin samkvæmt miðgildi, sama fjölgun mun verða á Egilsstöðum og á Borgarfirði eystra yfir sama tímabil. Íbúum á Seyðisfirði mun hins vegar aðeins fjölga um hálft prósent samkvæmt spám.
Allt er takmörkunum háð
Það hefur vart farið framhjá þeim sem með fylgjast að töluverður skortur hefur verið á húsnæði mjög víða á Austurlandi undanfarin ár og í áætlunni er tekið mið af þessu. Þar skýrt kveðið á um að uppsöfnuð húsnæðisþörf og eftirspurn eftir húsnæði í öllum fjórum þéttbýliskjörnum sveitarfélagsins sem ekki er hægt að verða við eins og staðan er, getur haft umtalsverð áhrif á fjöldaspár og viðgang og uppbyggingu atvinnulífs til framtíðar.