Skip to main content

Byggja þarf töluvert meira í Fjarðabyggð ef spár ganga eftir

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. maí 2025 14:01Uppfært 26. maí 2025 14:07

Miðað við endurskoðaða húsnæðisáætlun Fjarðabyggðar og þrátt fyrir töluvert meiri uppbyggingu íbúða í sveitarfélaginu undanfarið en árin áður þarf sveitarfélagið að gera enn betur ef mæta á áætlaðri íbúðaþörf næstu árin.

Þetta er mat Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) sem miðar þar við tölur sínar um að einar 50 íbúðir hafi verið í byggingu í sveitarfélaginu öllu í marsmánuði síðastliðnum.

Kemur fram í greiningu stofnunarinnar að þó mikill uppgangur hafi verið í byggingu íbúða síðustu tvö ár sérstaklega vanti enn töluvert upp að uppbyggingin dugi til að mæta þeirri þörf sem sveitarfélagið sjálft gerir ráð fyrir á næstu misserum.

Alls voru rúmlega 16% fleiri íbúðir í byggingu í Fjarðabyggð í marsmánuði þetta árið en í marsmánuði 2024 og 23% meira byggt nú en í sama mánuði 2023 að því er tölur HMS staðfesta. Hér er þó ekki öll sagan sögð því samkvæmt mælingum HMS var uppbygging meirihluta þessara 50 íbúða stutt á veg komnar og ekki orðnar foheldar.

Stofnunin segir að samkvæmt húsnæðisáætlun Fjarðabyggðar sé gert ráð fyrir 52 nýjum íbúðum árlega. Það gerir alls 246 íbúðir á næstu fimm árum og 524 íbúðum næsta áratuginn.

Fjöldi íbúða sem nú er í byggingu dugar ekki til að mæta þeirri þörf sem sveitarfélagið sjálft gerir ráð fyrir á næstu tveimur árum. Þrátt fyrir jafnan vöxt í uppbyggingu á síðustu árum eru merki um að auka þurfi í uppbyggingu nýrra íbúða til að ná markmiðum. Til að mæta áætlaðri íbúðaþörf þyrfti því að bæta við um 25 íbúðum árlega til viðbótar við þá uppbyggingu sem á sér stað.