Byggja þarf upp fjölfarna malarvegi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. ágú 2023 11:01 • Uppfært 09. ágú 2023 11:10
Endurbætur á vegum þar sem umferð hefur aukist mikið vegna fjölgunar ferðafólks er helsta áhersluatriðið í umsögn Fljótsdalshrepps um drög að samgönguáætlun fyrir árin 2024-38. Fljótsdælingar þrýsta eins og aðrir á um að jarðgangagerð á Austurlandi verði flýtt. Fleiri en sveitarfélögin á Austurlandi og reyndar fleiri en Austfirðingar hafa skoðanir á samgöngumálum í fjórðungnum.
Það eru vegirnir inn í Suðurdal og Norðurdal sem sveitarstjórn Fljótsdals leggur áherslu á. Inn dalina liggja malarvegir en innst í þeim eru vinsælir ferðamannastaðir, annars vegar Strútsfoss í Suðurdal og Óbyggðasetur Íslands í Norðurdal.
Sveitarstjórnin segir nauðsynlegt að koma bundnu slitlagi á vegina sem fyrst þar sem vegirnir séu ófærir vegna drullu hluta ársins en á öðrum árstímum sé mikil rykmengun íbúum og gestum til ama. Þess vegna vill sveitarstjórnin að fjármagn verði tryggt til endurbóta árin 2024-5.
Annars lýsa Fljótsdælingar yfir stuðningi við vegbætur utan sveitarfélagamarkanna. Þeir hvetja til þess að framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng hefjist 2024 en ekki 2025 og í framhaldinu farið í Seyðisfjarðar og Mjóafjarðargöng. Heilsársvegur um Öxi er sögð ein mikilvægasta samgöngubót Austurlands því hún auki hagkvæmni flutninga og ferðalaga.
Að auki leggur sveitarstjórn Fljótsdalshrepps áherslu á að gert verði ráð fyrir vegtengingu frá Kárahnjúkum að Brú á Jökuldal (Austurleið) á samgönguáætlun þannig að komið verði á hringtengingu sem verði fær öllum bílum.
Vegurinn inn að Stuðlagili ber ekki umferðina
Fleiri umsagnir eru um drögin, sem tekin verða til umræðu á Alþingi í haust, sem snúa að Austurlandi í samráðsgátt stjórnvalda. Frestur til að senda inn umsagnir rann út um síðustu mánaðamót.
Landeigendur að Grund á Jökuldal, sem stendur við Stuðlagil, telja tíma til kominn að malbika alla leið frá Skjöldólfsstöðum að Stuðlagili. Þeir segja veginn oft nánast ófæran vegna lélegs ástands. Um sé að ræða gamlan malarveg án burðarlags sem valdi því að erfitt sé að mætast. Það hafi meðal annars valdið því að kantur hafi gefið sig og rúta farið út af í júlí. Þar sé orðið tímaspursmál um hvenær alvarlegt slys verði. Samkvæmt þeirra mælum keyrðu 62.000 bílar þessa leið í fyrra, þar af 50.000 frá maí fram í september. Í lok júlí voru bílarnir orðnir 42.000 á árinu.
Eiður Ragnarsson, íbúi í Djúpavogshreppi, vekur athygli á að brýr á Suðurfjarðavegi hamli þungaflutningum um Austfirði. Í einhverjum tilfellum þurfi að fara með þung tæki yfir Breiðdalsheiði. Það hversu missiginn og hlykkjóttur vegurinn er í sunnanverðum Fáskrúðsfirði veldur vandræðum við vetrarþjónustu.
Vilja aðra forgangsröðun jarðganga
Einar Þorvaðarson, sem býr á Reyðarfirði, hvetur til þess að skoðanakönnun verði gerð meðal íbúa í Múlaþingi og Fjarðabyggð um hvort frekar eigi að leggja göng undir Fjarðarheiði eða grafa fyrst frá Norðfirði til Seyðisfjarðar um Mjóafjörð. Fyrst þurfti að gera nánari greiningu á þessum kostum, sem stjórnvöld hafi ekki gert.
Samgöngufélagið vísar til könnunar sem Gallup vann fyrir það árið 2020 sem sýndi að 42,4% Austfirðinga vildu Seyðisfjarðar- og Mjóafjarðargöng sem fyrstu göng á Austfjörðum en 37,9% Fjarðarheiðargöng. Félagið setur fram ýmsa gagnrýni á Fjarðarheiðargöngin, að þau séu dýr, jarðfræðin á leiðinni óhentug til gangagerðar og takmarkaða þjónustu sé til Seyðisfjarðar að sækja.
Ósammála um flugvelli og flugvallagjald
Af öðrum umsögnum má nefna að Samtök atvinnulífsins gagnrýna tilkomu varaflugvallargjalds á þeim forsendum að það kunni að skaða samkeppnisstöðu íslenskra flugrekenda og óttast að nauðsynleg uppbygging í Keflavík sitji á hakanum gagnvart öðrum völlum.
Austfirskar sveitarstjórnir hafa lýst yfir ánægju með gjaldið og það gera líka Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi eystra. Í umsögninni segir að á sama tíma og fara eigi í gríðarlega uppbyggingu í Keflavík sé lítill metnaður fyrir völlunum á Akureyri og Egilsstöðum. Samtökin ítreka einnig að verð á flugvélaeldsneyti verði jafnað milli flugvalla.
Þá leggur Félag íslenskra bifreiðaeigenda til að kílómetragjald verði tekið upp í stað núverandi skattlagningar á eldsneyti og setur fram formúlu um hvernig hægt sé að reikna það.