Skip to main content

Byggja upp í íþróttamiðstöð Djúpavogs fyrir tæpar tvær milljónir

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. maí 2025 09:26Uppfært 08. maí 2025 11:51

Aðstaða öll í íþróttamiðstöð Djúpavogs mun taka breytingum til hins betra á næstu misserum því miðstöðin fékk nýverið tæplega tvær milljónir króna úthlutaðar úr samfélagssjóði heimastjórnar þorpsins.

Árlega auglýsa heimastjórnir Múlaþings á hverjum stað fyrir sig eftir hugmyndum að uppbyggilegum verkefnum í bæjarfélögum sínum og hafa tiltekið fjármagn til slíkrar úthlutunar. Að þessu sinni komu aukaframlög frá bæði Þorrablótsnefndinni sem og kvenfélagi staðarins.

Á Djúpavogi bárust ellefu hugmyndir í mars síðastliðnum eins og Austurfrétt greindi þá frá. Nýverað var svo ákveðið að stærsti styrkurinn að þessu sinni færi til íþróttamiðstöðvar þorpsins. Þar skal nýta tæplega 1,9 milljón til að setja upp bæði hefðbundinn og infrarauðan sánaklefa, kalt kar, skolsturtu og geymslurekka. Ekki nóg með það heldur skal einnig nýta hluta til kaupa á fjölbreyttum vatnsleiktækjum og rennibraut fyrir sundlaugarsvæði miðstöðvarinnar.

Aðeins eitt annað verkefni fékk styrk þetta árið. Þar um að ræða rúmlega eina milljón króna sem fara skal til endurbyggingar og lagfæringar á göngustígnum upp Klifið.