Skip to main content

Covid-blóti frestað vegna Covid

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. mar 2022 15:23Uppfært 09. mar 2022 15:24

„Já, því er nú verr og miður en við þurfum að fresta Covid-blótinu um eina viku í vegna Covid-smits,“ segir Steinunn Snædal, einn skipuleggjenda Covid-blóts sem fram átti að fara í Brúarási næsta laugardagskvöld. Því hefur verið frestað um eina viku vegna Covid-smits.

Steinunn getur ekki annað en hlegið að þessu aðspurð en blótið að Brúarási er eitt örfárra þorrablóta sem haldin verða þetta árið enda voru þau flest blásin af meðan strangar reglur voru enn í gildi á þorranum. Steinunn segir að fólk hafi ekki getað ímyndað sér enn eitt árið án blóts og því var bara beðið færis.

„Við héngum bara í vonina um að úr rættist og þess vegna blésum við þetta ekki alveg af heldur frestuðum þessu bara um nokkrar vikur og viti menn, það gekk svo upp þegar takmörkunum var aflétt. Jafnvel þó við þurfum að geyma þetta í viku í viðbót.“

Blótið atarna, sem kaldhæðnislega er kallað Covidblót, fer fram að Brúarási þann 19. mars næstkomandi og þangað allir velkomnir sem vettlingi geta valdið að sögn Steinunnar. Þorrahlaðborð í boði og hljómsveit á staðnum en engar guðaveigar. Slíkt verður fólk að taka með sér.