Dægurhitamet slegið í gær
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. apr 2025 09:00 • Uppfært 08. apr 2025 09:01
Nýtt hitamet var sett hérlendis fyrir 7. apríl þegar hitinn fór í 17,9 gráður á Egilsstaðaflugvelli í gær. Þótt áfram sé spáð hlýju veðri þarf talsvert til að fleiri hitamet verði sett næstu daga.
Samkvæmt samantekt Trausta Jónssonar veðurfræðings var eldra hitamet dagsins 14,4 gráður, sett á Kollaleiru í Reyðarfirði árið 2011. Fyrir dagana 4. – 15. apríl eru öll dægurhitamet yfir 16 gráðum.
Hitamet aprílmánaðar er annars 21,2 gráða, sett í Neskaupstað þann 3. árið 2007. Árið 2011 fór hitinn í yfir 20 gráður á Skjaldþingsstöðum þann 9.
Austfirðingar nýttu gærdaginn vel. Eftir hádegi mátti sjá fólk í stuttermabolum og stuttbuxum, margir tóku til í garðinum og grilluðu um kvöldið.
Aftur er von á að hitinn á Austurlandi fari í allt að 16 stig á morgun. Í dag er spáð allt að 12 gráðum og 14 gráðum á fimmtudag. Á föstudag kólnar og virðist hitabylgjan búin í bili.
Af tíðarfari marsmánaðar er annars það að frétta að meðalhiti mældist vel yfir meðallagi á Austurlandi. Á Dalatanga og Teigarhorni var hann 2,8 gráður, eða 1°C yfir meðaltali síðustu 10 ára á Dalatanga og 1,3 gráðum yfir á Teigarhorni. Á Egilsstöðum var meðalhitinn 1,5 gráða sem er 1,3 gráðu yfir meðaltali.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 13,3 gráður á Kollaleiru í Reyðarfirði. Úrkoma í mars hefur aldrei mælst minni á Hánefsstöðum í Seyðisfirði síðan mælingar hófust þar árið 2003.
Mynd úr safni.