Dæmdir fyrir að reyna að koma þýfi úr Elko undan með Norrænu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 14. apr 2025 13:41 • Uppfært 14. apr 2025 13:41
Tveir rúmenskir karlmenn hafa verið dæmdir fyrir þátt sinn í stórþjófnaði úr raftækjaversluninni Elko í september í fyrra fyrir að reyna að koma hluta þýfisins úr landi með Norrænu. Þótt skýringar mannanna hafi tekið breytingum og verið með ólíkindablæ taldist ósannað að reiðufé sem þeir voru gripnir með tengdist innbrotinu.
Mennirnir voru gripnir í innritunarröð Norrænu í vikunni eftir innbrotið, eins og Austurfrétt greindi fyrst frá. Við leit í bílnum fundust tveir bakpokar með alls 129 símum frá Samsung og Apple, sem síðar var staðfest að kæmu úr Elko.
Þá fannst í veskjum mannanna tæpar tvær milljónir króna í reiðufé, þar sem rúmur helmingurinn var í íslenskum krónum. Auk síma var úr versluninni stolið fimm milljónum króna. Ákæruvaldið fór fram að auk refsingar yrðu bæði símarnir og reiðuféð haldlagt.
Gæjar úti á götu
Í kjölfar handtökunnar á Seyðisfirði voru mennirnir viku í gæsluvarðhaldi. Þar voru þeir yfirheyrðir. Annar þeirra hélt því fram að hann hefði hitt mann „niður í bæ“ það er að segja í Reykjavík sem hefði boðið honum 2.000 evrur eða um 300 þúsund krónur fyrir að skutla varningi í skipið. Þar myndi annar maður taka við þeim.
Hinn kvaðst hafa komið til landsins að hitta frænda sinn yfir helgi og ætlað svo aftur úr ferjunni. Hann hefði þó haft auga á viðskiptatækifærum og keypt símana „af einhverjum gæja úti á götu“ sem hann komst í samband við í gegnum annað fólk. Hann játaði að hafa vitað að um helmingur símanna væri stolinn.
Báðir mennirnir héldu því hins vegar fram að reiðuféð sem þeir voru með væri sannarlega þeirra eign, fyrir vinnu hérlendis. Evrurnar, 4.800 höfðu þeir keypt í Landsbankanum á Seyðisfirði daginn sem þeir ætluðu úr landi.
Sögðust hafa verið beittir hótunum
Framburður þeirra breyttist verulega fyrir dómi, aðallega í þá veru að þeir hefðu ekki átt að fá greitt fyrir flutninginn heldur hefði þeim og fjölskyldum þeirra verið hótað af manninum sem fékk þeim bílinn til að fara með úr landi.
Fyrrnefndi maðurinn sagði höfuðpaurinn hafa látið sig vita í símtali á leiðinni austur að í bílnum væru símar sem lögreglan mætti ekki vita af. Maðurinn sagðist ekki hafa vitað að þetta væri þýfi og hann hefði sannarlega farið til lögreglu ef hann hefði vitað um alvarleika málsins. Hinn maðurinn sagðist ekki hafa vitað að varningurinn væri þýfi en grunað það.
Þýfi enn að leka úr landi
Lögreglumenn sem báru vitni fyrir dómi skýrðu frá því að eftir innbrotið hefði verið látið vita á öllum útgönguleiðum úr landinu að grunur væri á að þýfi væri á leið úr landi. Bíll mannanna var undir eftirliti en ekki þeir sjálfir. Starfsmenn Norrænu létu vita að bíllinn væru skráður í ferjuna og gáfu upp nöfn þeirra sem fylgdu honum. Tengsl við aðra sakborninga í málinu virðast hafa verið að einhverju leyti þekkt, fyrrnefndi maðurinn bjó hjá meintum höfuðpaur.
Í dóminum kemur ekki fram nákvæmlega hversu mörgum símum var stolið úr Elko. Þar kemur hins vegar fram að þýfið sé enn „að leka úr landi“ og alls ekki allt fundið. Lögreglumennirnir sögðu einnig að þjófnaðurinn hefði verið þaulskipulagður en glæpamennirnir sjást skoða aðstæður í og við verslunina nokkrum dögum fyrr á upptökum úr öryggismyndavélum.
Mildari dómur fyrir upplýsingar um innbrotið
Dómurinn gaf ekki mikið fyrir skýringar mannanna á hvað símarnir hefðu verið að gera í bíl þeirra né hvers vegna þeir hefðu breytt framburði sínum. Hann sagði engar sannanir hafa komið fram fyrir að þeir hefðu sætt þvingunum eða hótunum, ákærðu væru trúlega að spinna slíkar sögur til að fegra hlut sinn. Þeir hefðu vitað að símarnir væru stolnir og þeir ætlað að koma þeim undan í auðgunarskyni.
En dómarinn gagnrýndi líka rannsókn lögreglu, það er að hafa hvorki greint fjármál mannanna né grennslast frekar fyrir um uppruna reiðufjárins. Mennirnir lögðu fram takmarkaða reikninga og launaseðla sem sýndu þó að þeir hefðu haft aðgang að reiðufé. Féð hefði að auki verið á mönnunum með skilríkjum þeirra en ekki í töskunum. Féð var ekki haldlagt en ekki er þar með sagt að mennirnir haldi því. Hvor þarf að greiða 1,3 milljónir í sakarkostnað, það er þóknun verjenda sinna, vel rúmlega það sem þeir höfðu á sér. Þriðjungur sakarkostnaðar fellur á ríkið.
Símarnir voru á móti gerðir upptækir og hvor einstaklingur dæmdur í 10 mánaða fangelsi, þar af voru sjö mánuðir skilorðsbundnir. Það var talið þeim til tekna að hafa veitt talsverðar upplýsingar um innbrotið í Elko og þá aðila sem stóðu að því.