Dæmdur fyrir að brjóta glerhurð verslunar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. feb 2022 15:02 • Uppfært 10. feb 2022 15:06
Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann í tveggja mánaða fangelsi fyrir að brjóta glerhurð í verslun og fyrir vörslu fíkniefna. Maðurinn hefur ítrekað komist í kast við lögin og hlotið refsidóma.
Það var í byrjun apríl í fyrra sem starfsmenn Olís á Reyðarfirði sáu að glerrennihurð verslunarinnar hafði verið brotin. Í öryggismyndavél sést maður koma að versluninni skömmu fyrir opnun og sparka í hurðina.
Lögregla var kvödd á staðinn og þekkti lögreglan manninn á upptökunni. Viku síðar var farið heim til hans í þeim tilgangi að boða hann til yfirheyrslu. Fann lögreglan þá megnan kannabisfnyk í íbúðinni.
Maðurinn neitaði að heimila leit svo fenginn var heimild með dómsúrskurði. Fundust þá rúm 50 grömm af marijúana og tæpt gramm af MDMA. Maðurinn var handtekinn ásamt tveimur félögum sínum.
Við meðferð málsins viðurkenndi maðurinn vörslu fíkniefnanna en neitaði að hafa brotið hurðina. Fyrir dómi var einnig tekist á um heimild öryggisstjóra Olís um að reka málið fyrir hönd þess og gera kröfu upp á 84 þúsund krónur fyrir skemmdir á hurðinni. Dómurinn staðfesti hvort tveggja.
Maðurinn játaði að hann hefði verið á vettvangi en hélt því hann hefði ruglast og mætt heldur snemma. Í svekkelsi sínu hefði hann barið í hurðina en ekki brotið hana. Dómurinn taldi hins vegar ekki fara á milli mála í upptökunni að maðurinn sparkaði í hurðina og bryti hana.
Maðurinn hefur ítrekað komist í kast við lögin og fengið dóma síðustu ár, meðal annars fyrir líkamsárásir og vopnað rán. Síðast í lok árs 2020 fékk hann sex mánaða fangelsisdóm. Fyrir nýjustu brotin var tveggja mánaða fangelsi talið hæfilegt. Hann þarf einnig að borga tæpa milljón króna í málskostnað.