Skip to main content

Dæmdur fyrir að slá lögreglumann í fangaklefa

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. jún 2023 11:01Uppfært 30. jún 2023 11:04

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt mann í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að slá lögreglumann í andlitið. Átök urðu milli mannsins og tveggja lögregluþjóna þegar hann dvaldi í fangaklefa.


Atvikið átti sér stað í september í fyrra. Samkvæmt dóminum var maðurinn handtekinn að kvöldi til nærri heimili sínu. Hann var æstur og ölvaður auk þess að nota móðgandi orð og sýna lögreglufólki ógnandi hegðun. Þess vegna var hann færður í fangaklefa.

Þar var hægt að fylgjast með honum í myndavélum og tala við hann í gegnum lúgu. Eftir miðnætti óskaði maðurinn eftir að fá að fara á salerni en var neitað um það af öryggisástæðum.

Maðurinn kom í veg fyrir að lögreglan gæti lokað lúgunni eftir samtalið þannig lögregluþjónarnir opnuðu klefadyrnar. Við það brutust út átök þar sem úða var beitt til að hemja manninn.

Hluti úðans skvettist á lögregluþjónana sem varð til þess að annar þeirra var einn með manninum inni í fangaklefanum í stutta stund. Maðurinn lá á bakinu en lögregluþjónninn sat ofan á honum og hélt um hendur hans.

Þrátt fyrir það náði maðurinn að losa hægri höndina og slá lögreglumanninn í andlitið þannig mar hlaust af. Maðurinn var keyrður heim til sín af lögreglunni daginn eftir að loknum yfirheyrslum.

Maðurinn játaði brot sitt og lýsti iðrun. Dómurinn mat það honum til tekna þótt um væri að ræða alvarlegt brot gegn lögreglumanni við skyldustörf. Þá hefur maðurinn áður hlotið refsidóma. Hann var því dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára og til að greiða 620 þúsund í málskostnað.