Skip to main content

Dæmdur í fangelsi fyrir að keyra ítrekað án ökuréttinda

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. ágú 2025 11:58Uppfært 21. ágú 2025 11:58

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri í samtals fjögurra mánaða fangelsi fyrir ítrekuð brot á umferðarlagabrotum. Fjórum sinnum hefur hann verið tekinn undir stýri sviptur ökurétti.


Maðurinn hefur frá árinu 2018 alls átta sinnum verið dæmdur fyrir umferðarlagabrot. Samkvæmt dóminum var hann fyrst sviptur ökuréttindum sumarið 2022 fyrir að aka undir áhrifum. Um haustið hlaut hann sekt og tímabundna sviptingu fyrir að aka undir áhrifum og án réttinda.

Í janúar 2024 var hann dæmdur í 105 daga fangelsi og sviptur ökuréttindum ævilangt. Það var í kjölfar þess að hann var tekinn undir áhrifum og próflaus við stýrið síðsumars 2023. Tveir mánuðir refsingarinnar voru skilorðsbundnir.

Í lok janúar í ár var hann dæmdur í fimm mánaða fangelsi fyrir að aka undir áhrifum og aftur sviptur réttindum ævilangt. Í þeim dómi var ekki tekið tillit til skilorðsbundna dómsins.

En maðurinn lét sér ekki segjast heldur var tekinn viku síðar á ferð án réttinda í Álftafirði. Það atvik leiddi til dómsins sem féll í Héraðsdómi Austurlands nú í sumar. Þetta er þar með fjórða brotið af sömu tegund. Við uppkvaðningu dómsins var litið til þess að maðurinn rauf skilorð.

Hæfileg refsing þótti fjögurra mánaða fangelsi, en af henni eru tveir mánuðir skilorðsbundnir.