Deilt um aðgengi að vaktaplönum á Dyngju
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. mar 2022 08:40 • Uppfært 22. mar 2022 16:40
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur vísað frá kæru íbúa á hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum sem vildi fá úr því skorið hvort hann ætti rétt á að fá að vita fram í tímann hvaða starfsmenn yrðu á vakt.
Málið fór af stað í nóvember 2020 þegar kona, sem býr á Dyngju, óskaði eftir aðgengi að vaktaskýrslum til að sjá hverjir væru á vakt á hjúkrunarheimilinu. Að fengnu áliti persónuverndarfulltrúa Heilbrigðisstofnunar Austurlands, sem rekur Dyngju, var ákveðið að konan fengi að vita hverjir væru að vinna í upphafi hverrar vaktar.
Eftir athugasemdir til HSA var óskað eftir úrskurði Persónuverndar þannig upplýsingagjöf til konunnar yrði innan marka persónuverndarlaga. Þeirri beiðni var vísað frá þar sem Persónuvernd tekur aðeins til meðferðar kvartanir frá þeim sem persónuupplýsingar varðar, það er starfsfólki Dyngju í þessu tilfelli.
Næst var þá óskað eftir afstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál um hvort stjórnendum HSA væri heimilt að takmarka upplýsingagjöfina við að hún biðji um upplýsingarnar þrisvar á dag í stað þess að veita þær daglega.
Í svari HSA segir að konunni hafi um tíma verið afhentar upplýsingar um starfsfólk á vakt næsta sólarhring upp úr vaktaplönum. Starfsfólk hafi hins vegar kvartað eftir að eiginmaður konunnar hafði samband við starfsfólk eða aðstandendur þess ef það mætti einhverra hluta vegna ekki á vakt. Þess vegna hafi verið ákveðið að greina konunni frá því í upphafi hverrar vaktar hverjir séu mættir og það ætti hún að fá án þess að þurfa að biðja um það.
HSA hafnaði því að fyrirkomulagið fæli í sér takmörkun á upplýsingarétti en taldi málið ekki í verkahring nefndarinnar og því bæri að vísa því frá. Stofnunni sé þó heimilt að neita aðgengi að gögnum um einkahagi starfsfólks.
Konan óskaði jafnframt eftir áliti persónuverndarfulltrúans sem og bréfum til stafsfólks um málefni hennar og eiginmannsins. Þau voru afhent eftir að úrskurðarnefndin skoraði á HSA að taka afstöðu til beiðninnar í maí í fyrra.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar var að vísa málinu frá þar sem hún geti aðeins tekið afstöðu til gagna sem til eru. Aðrar stofnanir, til dæmis Umboðsmaður Alþingis, taki á álitamálum um aðgengi til framtíðar.
Úrskurðarnefndin bendir þó á að í gögnum málsins sé vaktaáætlun mánuð fram í tímann. Konan geti óskað eftir því skjali og kært til nefndarinnar verði henni synjað um hana.