Deilt um mörk Úthéraðs á Úthéraðsfundi
Töluverðar umræður spunnust um mörk þess sem kallast Úthérað á sérstökum fundi Múlaþings vegna nokkurra ára gamals verkefnis sem titlað er Úthéraðsverkefnið.
Verkefnið tengist svokallaðri C-9 áætlun síðustu ríkisstjórnar um sérstakt átak í friðlýsingum sem liður í eflingu byggða. Verkefninu ætlað að gera Úthéraðinu hærri undir höfði og fyrst og fremst horft til fjölgunar ferðafólks en jafnframt hvernig mætti bæta búsetuskilyrði á svæðinu og stuðla að vernd ýmissa náttúruperla sem finnast þar um slóðir.
Um 30 manns sóttu fundinn þar sem reyfað var bæði hvaða hugmyndir sveitarstjórnarmenn væru með en ekki síður óskað eftir hugmyndum frá íbúum á svæðinu en fundurinn var haldinn í félagsheimilinu Hjaltalundi í Hjaltastaðaþinghá. Að honum kom sveitarstjórnarfólk auk aðila frá Austurbrú og Náttúrustofu Austurlands. Síðastnefndi aðilinn hefur útbúið greinargerð um svæðið og hagrænar sviðsmyndir hugsanlegra friðlýsinga þar um slóðir.
Hvað er Úthérað?
Ýmislegt kom upp úr dúrnum á fundinum en gagnrýnt var af nokkrum fundamönnum hve mikil áhersla væri lögð á Hjaltastaðaþinghá meðan Hróarstunga og Hlíð mættu afgangi. Aðeins einn úr Jökulsárhlíð var á fundinum og tveir úr Hróarstungu en báðir staðir hafa lengi flokkast sem Úthérað meðal flestra íbúa ekkert síður en Eiða- og Hjaltastaðaþinghá.
Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrum þingmaður, skrifaði sérstaka bók um Úthérað 2008 og þar tiltók hann byggðir Úthéraðs sem Eiða- og Hjaltastaðaþinghá, Fell, Hróarstungu og Jökulsárhlíð allt út á Standandanes.
Fram kom á fundinum að með tilliti til að Eiðar nyti nú þegar góðs af töluverðum fjölda ferðafólks og þar væri frekari uppbygging framundan væri óráð að taka þann stað með í reikninginn því meginhugmyndin með verkefninu væri að styðja dreifbýlli byggðina utar sem hefði færri tækifæri í höndunum.
Innlegg Náttúrustofu
Greining Náttúrustofu Austurlands (NA) leiddi í ljós ýmsa vankanta á framkvæmd verkefnisins af hálfu Múlaþings og þar áður Fljótsdalshéraðs, og meðal annars voru þeir hagsmunaaðilar sem sveitarfélagið tilnefndi vegna þessa verkefnis ekki nægilega upplýstir um þær tilnefningar í upphafi. Slíkar tilnefningar nauðsynlegar vegna flókins eignarhalds á sumum svæðum sem hér um ræðir.
Veigamesta niðurstaða NA var þó sú að íbúar reyndust taka skýra afstöðu gegn hvers kyns friðlýsingum sem margir töldu að allt ferlið væri fyrsta skrefið að. Ferlið frá upphafi hafi því verið ruglingslegt fyrir almenning að mati Náttúrustofu.
Þá kom í ljós að hugsanleg hagræn áhrif reyndust ekki meginhvati til friðlýsingar heldur fremur umhyggja fyrir tilteknu svæði eða svæðum. Ýmsir voru mótfallnir friðlýsingum í þeirri von að tiltekin svæði kæmust ekki á kort ferðafólks meðan aðrir voru því hlynntir í þeirri von að markviss uppbygging innviða myndi vernda umrædd svæði. Fleiri voru þó mótfallnir slíku.
Vindmyllur ekki til tals
Athygli vakti að enginn fundarmanna; hvorki gestir né embættismenn minntust á hugsanlega uppsetningu tveggja 170 metra hárra vindmylla við Lagarfoss á næstu árum en þær myllur verða sýnilegar um mestallt Úthérað. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að slík starfsemi getur haft töluverð neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna og ekki hvað síst varðandi hávaða sem frá þeim stafar. Úthérað er líka velþekkt og vinsælt fuglaskoðunarvæði en fugladauði getur verið nokkur í og við slíkar myllur.
Austurbrú í forsvari
Ákveðið var eftir langan fund að forsvarsmenn Austurbrúar myndu hafa forgöngu um frekara samráð vegna málsins án aðkomu sveitarstjórnarfólks. Mun stofnunin funda á næstu vikum með þremur einstaklingum frá svæðinu til að reyna að fá botn í hvað íbúar sjálfir sjá fyrir sér, hvað þeim hugnast ekki og hvert framhaldið á verkefninu skuli vera.
Mynd: Í hugum margra er Úthérað samheiti yfir allt svæðið út frá Egilsstöðum og Fellabæ og alla leið að Héraðssandi en skiptar skoðanir eru um nákvæm mörk. Mynd Múlaþing