Skip to main content

Dísill fór á bensíntanka N1 á Vopnafirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. nóv 2023 11:07Uppfært 29. nóv 2023 11:10

Mistök við áfyllingu á afgreiðslustöð N1 á Vopnafirði fyrir viku olli því að dísilolía blandaðist við bensín. Blöndunin er talin hafa verið lítið en gangtruflanir hafa komið upp í bílum á staðnum. Eigendur þeirra geta leitað til verkstæðis á staðnum.


Fyrirtækið sendi orðsendingu til Vopnfirðinga í morgun með upplýsingum um að mannleg mistök hefðu valdið blönduninni við áfyllingu síðasta miðvikudag. Þar er beðist fyrirgefningar og eigendum bíla með gangtruflanir bent á að snúa sér til verkstæðis Bíla og véla.

Eftir að kvörtun barst fyrirtækinu var sett af stað athugun sem leiddi í ljós í gær að blöndun hefði orðið á afgreiðslustöðinni. „Það er hefðbundið ferli þegar svona kvörtun berst,“ segir Sigurður Bjarnason, sölustjóri N1.

Dælunum var lokað þegar þetta var ljóst í gær og seint í gærkvöldi skipt um eldsneyti á bensíndælunum. Vandamálið á þar með að vera úr sögunni.

Sigurður segir talið að blöndunin hafi verið lítil þannig að ekki verði allir þeir sem hafi tekið bensín á Vopnafirði síðustu vikuna varir við gangtruflanir. Þessi takmarkaða blöndun útskýri einnig hvers vegna tíma hafi tekið að finna vandann.

Þess vegna sé heldur ekki hægt að svara núna hversu mikið tjón viðskiptavina sé. Viðbúið er að töluverður fjöldi hafi fengið blandað eldsneyti vegna þess tíma sem leið. „Við teljum þetta fyrst og fremst óþægindi en getum ekki svarað enn hvort þetta valdi frekara tjóni. Við erum að vinna í að bílar með gangtruflanir fari á verkstæði á Vopnafirði þar sem skipt er um bensín, síur og annað slíkt. Bílar og vélar vinna í reikning frá okkur. Við greiðum klárlega öll óþægindi.“