Skip to main content

Dreymir um knatthús á Seyðisfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. feb 2022 15:17Uppfært 24. feb 2022 15:22

„Við höfum talað um þetta í langan tíma og prófuðum meira að segja að setja upp styrktarreikning til að koma boltanum af stað,“ segir Rúnar Freyr Þórhallsson, sjávarútvegsfræðingur.

Hann hefur ásamt móðurbróður sínum, Birki Pálssyni, haft veg og vanda af því að byggt verði lítið knatthús á Seyðisfirði í framtíðinni en hugmyndina kynntu þeir félagar formlega fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði Múlaþings fyrr í vikunni.

Bæði Rúnar og Birkir eru frá Seyðisfirði en búsettir sunnanlands í dag og báða langar að sjá fleiri valkosti fyrir fólkið á Seyðisfirði en nú eru til staðar.

„Hugmyndin snýr að því að byggja lítið knatthús í bænum og gefa þannig bæði ungum og öldnum tækifæri til að hreyfa sig án þess að þurfa að hafa áhyggjur af veðri og vindum í hvert skipti. Vissulega er íþróttahúsið á staðnum ágætt sem slíkt en með knatthúsi myndi möguleikum fólks til alls kyns íþrótta, hreyfingar eða viðburða fjölga til muna. Þar gætu krakkarnir sparkað bolta inn á milli þess sem eldri borgarar færu í góða göngutúra svo fátt sé nefnt.“

Með knatthúsi eru þeir félagar ekki að tala um uppblásið hús á borð við það sem sprakk í Hveragerði fyrir skemmstu heldur er um að ræða hús með steyptum sökkli, lágum veggjum og stálgrind í lofti. Yfir það er svo dreginn þykkur dúkur. Íþróttafélagið FH í Hafnarfirði hefur reist þrjú slík hús gegnum tíðina og reynslan af þeim góð.

Aðspurður um viðbrögð sveitarstjórnarmanna segir Rúnar þær hafa verið góðar. Menn sýndu því áhuga að skoða þetta frekar og leita á álits heimastjórnar og íþróttafélagsins Hugins á hugmyndinni.

„Þessi bolti allavega kominn af stað,“ segir Rúnar og segist vona það besta.

Mynd: Eitt knatthúsa FH í Hafnarfirði en knatthús sem félagarnir sjá fyrir sér á Seyðisfirði er nokkuð minna í sniðum en þetta sem hér sést. Mynd FH