Skip to main content

Drjúg sæbjúguveiði undan Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. nóv 2023 13:28Uppfært 21. nóv 2023 14:14

Tveir bátar sem gert hafa út á sæbjúgu úr höfnum Austurlands verma nú langefstu sætin hvað heildarafla þeirrar tegundar varðar en báðir bátarnir rufu þúsund tonna múrinn fyrir skemmstu.

Hér er um að ræða annars vegar Klett ÍS sem landað hefur að mestu í Breiðdalsvík og Jóhönnu ÁR sem hefur skilað afla á land á Djúpavogi, Reyðarfirði og Stöðvarfirði. Sá fyrrnefndi komið að landi með 1030 tonn í 69 róðrum en sá síðarnefndi 1006 tonn alls í 79 túrum út á miðin samkvæmt vefmiðlinum Aflafréttir. Í ofanálag hefur Eyji NK 4 sem gert hefur út frá Neskaupstað um langa hríð komið að landi þar með 147 tonn af sæbjúgunum.

Ólafur Hannesson, forsprakki Hafnarness í Þorlákshöfn, sem gerir út Jóhönnu ÁR segir vertíðina hafa verið ágæta en því miður hafi veðurfar í nóvember ekki gefið tilefni til þess að gera mikið út.

„Báturinn okkar hefur verið meira í landi en úti þennan mánuðinn en þessar veiðar eru þess eðlis að það þarf að vera nokkuð kyrrt í sjóinn svo vel sé hægt að athafna sig. En fram að því gekk afar vel og við sáttir. Bátinn höfum við áfram fyrir austan en við yfirleitt höldum suður á bóginn með vorinu og erum fyrir austan land seinnipart sumars og fram til svona október eða nóvember eftir atvikum. Sala á afurðunum er að batna en hún fór mikið niður á við vegna Covid og verð lækkuðu töluvert. Þetta er að batna hægt og bítandi og ég bara bjartsýnn á að svo verði áfram.“

Veiðar á sæbjúgu hér við land er ekki ýkja gamalt fyrirbæri en töluverður markaður er fyrir tegundina bæði í Asíu og Eyjaálfu þar sem bjúgun þykja herramannsmatur og þær gjarnan notaðar sem bragðbætir í súpur hvers kyns. Samkvæmt Vísindavef Háskóla Íslands hafa rannsóknir á tegundinni síðustu árin sýnt fram á að sæbjúgu eru einhverjar mikilvægustu lífverurnar í djúpinu því þær koma lífrænum ögnum úr botnseti sjávar aftur í fæðuhringrás hafsins.

Fersk sæbjúgu úr togi fyrir austan land. Mynd Hafrannsóknarstofnunin