Drög kynnt að svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Austurlandi
Öll sveitarfélög Austurlands hafa nú fengið til skoðunar drög að sérstakri svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs en unnið hefur verið af þeirri áætlun af hálfu Austurbrúar síðan 2022. Sú skal taka formlegt gildi í sumar.
Þessi vinna er unnin samkvæmt sérstakri lagaskyldu sem kveður á um að sveitarstjórn, ein eða fleiri í sameiningu, skuli semja og staðfesta svæðisáætlun sem gildi næstu tólf árin og er liður í að þróa hringrásarhagkerfið og auka sjálfbærni í úrgangsmálum.
Stóru sveitarfélögin Múlaþing og Fjarðabyggð eru reyndar vel á veg komin með breytingar sem gera þarf á úrgangsmálum en samkvæmt kynntum drögum skal grípa til 20 mismunandi aðgerða á næstu þremur árum.
Samkvæmt aðgerðaráætluninni skal meðal annars komið á fót á þessu ári sérstöku Úrgangsráði Austurlands og sömuleiðis skal ráða sérstakan hringrásarfulltrúa sem yrði sérstakur verkefnastjóri Úrgangsráðsins.
Auka skal alla kynningu til íbúa til muna frá því sem verið hefur um hringrásarhagkerfið og lágmarka myndun úrgangs eins og kostur er. Í því ljósi fari fram greining á fyrirkomulagi úrgangssöfnunar svo lágmarki megi sóun í kerfinu. Fjölga skal grenndargámum í fjórðungnum og leita leiða til að reglur verði sveigjanlegri gagnvart hvers kyns heimajarðgerð.
Greina skal líka kosti og galla þess að koma upp urðunarstöðum fyrir óvirkan úrgang sem er allur úrgangur sem ekki tekur efna- eða eðlisfræðilegum breytingum við urðun. Að endingu er opnað á þá hugmynd sett verði upp sérstaks sorporkuver á Austurlandi en þangað fari allur úrgangur sem ekki er endurvinnanlegur að neinu leyti.